Mjólkin farin?

17.05.2009

Ég á litla stelpu sem er 5 mánaða. Meltingasérfræðingur barna sagði mér að fara að gefa henni að borða vegna hægðatregðu. Það eru aðeins 3 dagar síðan ég gaf henni fyrst og þá bara smá á kvöldin. Hún drekkur þar af leiðandi aðeins minna fyrir svefninn en mér finnst núna eins og mjólkin sé að hverfa. Það er eiginlega ekkert í brjóstunum þó hún hafi ekki drukkið lengi og hún er svöng. Ég átti í öfugu vandamáli að stríða fyrst þá voru brjóstin á mér að springa. Hvað á ég að gera? Hef aldrei þurft að gefa henni pela.

 


Sæl og blessuð!

Það var slæmt að hún skyldi lenda í þessu hægðatregðuvandamáli og sennilega hefur það haft meiri áhrif á þig en þig grunar. Það er nefnilega svo að áföll bæði stór og smá geta haft tímabundin áhrif á brjóstagjöf og gert hana erfiðari. Mjólkin fer ekkert og framleiðslugetan er alveg jafn góð. Það eru áhrif á losunarviðbragðið sem geta truflað brjóstagjöfina. Barn getur farið að láta illa við brjóst og sýnt óánægjuhegðun vegna þess að mjólkin flæðir ekki jafnfljótt og greiðlega til þess.

Það er mikilvægt að bregðast við þessu með betri slökun í gjöfum og jafnvel auka örvun tímabundið. Það myndi þá þýða aukagjafir þegar barn er til í það eða að mjólka smá út í glas ef barn er ekki tilbúið. Eftir fáa daga er svo yfirleitt komið jafnvægi á aftur.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. maí 2009.