Mjólkin rennur beint í gegn

19.08.2010

Sælar ljósmæður!

Ég er með einn 4 mánaða dreng sem er eingöngu á brjósti og gengur allt eins og í sögu þar. En það er eitt sem ég er að spá í. Undanfarna daga er eins og mjólkin renni beint í gegnum hann og endi í bleiunni. Hann hefur kúkað mjög oft og stundum er þetta mjög lint (hreinlega fljótandi) og grænleitt. Ég hef lesið og heyrt að grænar hægðir þýði að þau fái ekki rjómann og gæti það alveg átt við í hans tilfelli því hann hefur bara drukkuð annað brjóstið og virst saddur. Hann hefur bara ekki viljað hitt.Reyndar, akkúrat í dag, drakk hann vel úr báðum. En hann er voðalega vær og ljúfur og sefur eins og hann er vanur (vaknar yfirleitt bara x 1 á nóttu) og það líða alltaf c.a 3 tímar milli gjafa hjá honum. Þarf ég að hafa einhverjar áhyggjur af þessu "rennsli" hjá honum?

Kveðja,SGP .

 


Sæl og blessuð SGP.

Ég held ekki að þú þurfir að hafa neinar áhyggjur. „Hann er voðalega vær og ljúfur“ segir manni allt sem segja þarf. Yfirleitt hefur maður ekki áhyggjur af þvagi og hægðum hjá brjóstfæddum börnum nema einhver vandræði hjá þeim séu til staðar. Hann fær trúlega allan þann „rjóma“ sem hann þarf og það er betra að hann taki bara eitt brjóst til að það takist. Hægðir eiga það til að breytast að lit, þéttleika og fjölda fram og til baka án þess að það merki neitt sérstakt.

Gangi þér vel áfram.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. ágúst 2010.