Spurt og svarað

12. júní 2007

Mjólkun - næ litlu

Hæ, hæ og takk fyrir góðan vef.

Ég er með eina 7 vikna sem er búin að vera á brjósti síðan hún fæddist en núna er hún farin að fá smá ábót á kvöldin þar sem hún er búin að vera frekar óróleg á kvöldin. Ég held að hún sé bara búin að vera að taka vaxtarkipp. Hún þyngist vel og allt í góðu lagi. Ég hef alveg nóg fyrir hana á daginn. Hún bara drekkur og er snögg að því á daginn. 

Ég þurfti út frá henni eitt kvöld um daginn og fékk hún þá bara þurrmjólk það kvöldið svo kom ég heim um miðnætti og var hún þá sofnuð þannig að ég gat ekki gefið henni, svo vaknaði hún um 5 leytið og ég hélt að ég væri að springa þar sem brjóstin voru svo full að ég hélt. Hún tók bara annað brjóstið og það liggur við lak út um allt hjá henni, hún hafði ekki við að drekka og svo sofnaði hún bara. Þá ákvað ég að handpumpa hitt en þá kom bara smá úr því, bara 40 ml. Mín spurning er hvernig gat hún fengið nóg ef hún fékk kannski bara 40ml? Hún var ekkert búin að drekka í 5 tíma. Tek það fram að hún er að þyngjast og er þvílíkt góð.

Með fyrirfram þökk, ein í smá hugleiðingum.


Sæl og blessuð.

Það er svo sem ekki ein skýring á þessu sem þú ert að lýsa en aðalskýringin er sú að þegar börn eru komin á þennan aldur ( 6-8 vikna) fer stjórnun á mjólkurframleiðslu og losun að mestu leyti undir barnið. Það er að segja að brjóstin bregðast fljótt og vel við sogi barnsins en það er mun erfiðara að fá þau til að mjólka á annan hátt. Því er svo erfitt að fá pumpur og vélar til að virka almennilega eftir þennan tíma. Það er þó hægt að vissu leyti með mikilli æfingu. Í þínu tilfelli hefur barnið væntanlega fengið mjög stóra gjöf af brjóstinu sem það drakk. Reyndar ansi þunna mjólk þar sem langt var liðið frá síðustu gjöf en stóra m.t.t. rúmmáls. Það hefði alveg getað ná sama magni úr hinu brjóstinu ef það hefði sogið. En við að fá pumpuna við brjóstið „lokar“ brjóstið að vissu leyti á þig þannig að þú nærð bara smá hluta af mjólkinni.

Vona að þetta hafi skýrt eitthvað.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. júní 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.