Mjólkun á meðgöngu

03.02.2009

Sæl!

 Ég var að pæla hvort það sé í lagi að byrja mjólka sig á meðgöngu? Ég lek svo mikið og svo mjólkin fari ekki til spillis var ég að hugsa um að byrja mjólka mig og frysta mjólkina. Getur það haft einhver áhrif að byrja mjólka sig á meðgöngu?

 


Sæl og blessuð!

Það er almennt ekki talið heppilegt að mjólka sig á meðgöngu. Það skilar oftast litlum árangri. Örvun brjóstanna getur átt þátt í að setja fæðingu af stað fyrr en æskilegt er. Síðan er samsetning mjólkurinnar ekki talin góð fyrir barn nema allra fyrst. Eftir fæðinguna fer af stað ferli sem hvetur framleiðslu mjólkur með þeim innihaldsefnum sem barnið þarfnast. Þetta ferli getur ekki farið af stað á meðgöngu. Mjólk sem framleiðist á meðgöngu hæfir því ekki barni eftir fæðingu.

Ég ráðlegg þér að fá þér góð brjóstainnlegg til að taka við lekanum og passa að örva ekki brjóstin.

Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. febrúar 2009.