Spurt og svarað

12. janúar 2005

Mjólkun með mjaltavél

Ég er með barn á vökudeild og langar að fá upplýsingar varðandi mjólkun.  Ég mjólka mig 5-6 sinnum á dag en mér finnst svo lítið koma miðað við aðrar mæður sem ég sé.  Hvað er mikið sem ætti að koma í hvert skipti?  Er eitthvað sem ég get gert sem getur aukið framleiðsluna? Óska eftir svari sem allra allra fyrst, er að verða pínulítið stressuð.

............................................................................

Sæl og blessuð.

Afsakaðu að svarið þitt kom ekki fyrr en veikidum er um að kenna. Vona að svarið geti hjálpað þér en oft er tímaþátturinn ekki jafn mikilvægur þegar eingöngu er um mjaltir að ræða eins og annars. Tímaþátturinn er alltaf mikilvægastur í byrjun. Því fyrr sem mjaltir byrja eftir fæðinguna því betra og fyrst á eftir þarf að fara nokkuð ört í mjaltavél til að setja framleiðsluna vel af stað. Þá er átt við fyrstu 2-3 dagana a.m.k. Þá má aldrei láta líða meira en 6 klukkustundir milli mjalta. Ef þessi atriði hafa einhverra hluta ekki gengið upp er alltaf erfitt að ná upp góðri framleiðslu til frambúðar.
Það kemur ekki fram hversu langt er síðan þú fæddir en ég get talað um mjaltavélaörvun almennt. Ég miða við að barnið sé ekki fært um að fara neitt á brjóst eða sjá um neina örvun.
Yfirleitt er miðað við að fara eins oft í vél og barnið þyrfti að fá næringu ef það gæti sogið. Það er algengast 8-12 sinnum á sólarhring. Þetta er gert þar til tryggt er að næg framleiðsla er fyrir þarfir barnsins. Þá er gjarnan fækkað mjöltunum hægt og rólega. Þeim konum sem hafa góða framleiðslu dugar stundum að fara 4-5 sinnum á sólarhring í mjaltavél þegar allt er komið á góðan skrið. Þær eru þó færri sem það geta en hinar. Það er ekki mikilvægt atriði að bilið milli mjaltatíma sé jafnt. Það má fara eftir hentugleikum hverrar móður ef hún aðeins passar að aldrei líði meira en 6 klst á milli.

Lengd hverra mjalta fer eftir hve mikið kemur. Það þarf þó alltaf að ná 10 mínútum í hvert skipti og ef heildartími er tekinn er miðað við 100-120 mínútur samtals yfir sólarhringinn. Það er í lagi að hætta þegar flæðið fer að minnka verulega en ekki rembast við að reyna að tæma brjóstið því það er ekki gerlegt.

Það er ekki hægt að segja einhverja tölu um hvað „eigi“ að koma við hverjar mjaltir. Það þarf alltaf að miðast við hve mikið magn vikomandi barn „ætti“ að drekka úr brjóstinu ef það væri fært um það. Það þarf að örva brjóstin til að framleiða það mjólkurmagn sem barnið þarfnast á hverjum tíma miða við sólarhring.

Hvað hægt er að gera til auka framleiðslu er í raun ýmislegt. Yfirleitt er byrjað á að fjölga mjöltunum. Bæta við 2-3 á sólarhring. Það hefur líka alltaf áhrif til aukningar að mjalta bæði brjóstin í einu. Það er hægt með sumum tegundum mjaltavéla og eins ef er handmjólkað. Svokölluð tvöföld mjólkun bætir líka í mjólkurmagn. Þá er mjólkað fyrst eins og venjulega svo hætt í nokkrar mínútur og svo byrjað aftur. Andleg áhrif er mjög mikil hjá konum sem eingöngu mjalta sig. Það getur haft mikið að segja að horfa á mynd af barninu eða barnið sjálft, heyra í því, hugsa um það, finna lyktina af því og nota slökunaraðferðir og róandi umhverfi við mjaltir. Öll örvun sem kemur frá barninu er af hinu góða t.d. að fá að halda á því, að láta það snerta brjóstin eða bara klaufalegar tilraunir þess til að sjúga sem takast ekki. Heitir bakstrar á brjóst fyrir gjafir hjálpa til við flæði svo og brjóstanudd. Sumar konur reyna að drekka mjólkuraukandi te eða taka inn jurtalyf sem auka mjólkurframleiðslu hjá sumum konum. Fenugreek er eitt þessara lyfja sem sumum konum finnst hjálpa.

Það er algengt að erfiður tími sé hjá konum sem eingöngu mjalta sig 3 mánuðum eftir fæðingu og þá kemur ákveðið „fall“ í framleiðslu. Það kostar ákveðna vinnu að komast yfir það. Sumum tekst það en öðrum ekki eins og gengur. Enn og aftur fer það eftir byrjuninni hvernig til tekst.

Með von um að eitthvað af þessum skrifum hafi upplýst þig og kannski hjálpað.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. janúar 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.