Spurt og svarað

11. október 2007

Mjólkun og losunarviðbragð

Sæl.

Ég hef verið að prufa að mjólka mig til að eiga mjólk handa stelpunni minni þegar ég þarf að fara frá henni bráðlega. Ég hef lesið heilmikið um mjólkunina og geymslu hennar hér á síðunni. Mig langar til að vita með mjólkurlosunarviðbragðið. Ég finn alltaf fyrir þessu þegar ég gef stelpunni minni, eftir nokkur sog fæ ég verki í bæði brjóstin og svo hverfur hann eftir um mínútu eða svo. Það sem mig langar að vita er þegar ég mjólka mig hef ég fundið fyrir þessu líka, en í eitt skiptið fann ég ekki þennan verk. Er ekki samt mjólk að koma? Getur verið að það sé bara
formjólk þegar ég finn ekki þennan verk? Hversu lengi er formjólkin að koma og hvenær tekur mjólkin við þegar maður mjólkar sig? Ég veit að stelpan mín er líklegast búin með formjólkina eftir um 5 mín á brjósti, þar sem ég hef komið til Katrínar Eddu í ráðgjöf.

Kveðja, Íris.


Sæl og blessuð Íris.

Mjólkurlosunarviðbragðið er eitt af þessu sem telst ekki til öruggra vísinda. Það er líklegt að þú finnir ekki fyrir því alla þína brjóstagjöf. Það má segja að það sé alltaf gott merki þegar það finnst en þó þú finnir það ekki þá þarf það ekki endilega að boða neitt slæmt. Mjólkurflæði getur verið í fínu lagi þótt ekki finnist viðbragðið. Við mjólkun er þetta eiginlegra auðveldara við að eiga. Þá sérðu mjólkina sem kemur og þarft ekki að hafa meiri áhyggjur af því. Ef eitthvað gengur treglega að koma henni af stað geturðu gripið til aðgerða. Slaka á, lækka hávaða, hugsa um barnið o.s.frv.  Mjólkurlosunarviðbragðið á ekki bara við formjólk heldur ferlið í heild sinni. Formjólkin rennur yfirleitt í 3-10 mínútur alveg sama hvort um gjöf eða mjöltun er að ræða en það er líklegt að hún sé ívið lengur í mjöltum. Þetta er svolítið breytilegt því hlutfall formjólkur er hæst fyrrihluta dags en lægst seinnihluta. Tími formjólkurrennslis er því ekki föst tala.

Vona að þetta hjálpi.   

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.