Spurt og svarað

16. maí 2005

Mjólkuraukandi lyf

Ég var að lesa að það sé til lyf til að auka mjólkurframleiðslu. Hverjum er boðið svona lyf? Nú hef ég verið að berjast við að auka mjólkina en ekkert gengur. Þurfti að mjólka mig í 3 daga þegar stelpan var vikugömul og hef ekki náð framleiðslunni upp síðan.  Ástæðan fyrir því að ég þurfti að mjólka mig var að hún var með sogvillu og gerði gat á mig.  En nú tekur hún rétt en fær ekki nóg og verður þá pirruð.  Hún fær ábót á kvöldin (50-100 ml á dag) og helst vildi ég losna við það.  Mér finnst ég vera mjólkurlaus á kvöldin í kringum kvöldmat er eins og mjólkin sé búin yfir daginn.  Á nóttunni fer svo allt í gang aftur og þegar hún vaknar er nóg til.  Hins vegar er ég frekar fastmjólka alla vega lekur aldrei dropi úr brjóstunum. Hvernig er þetta lyf sem talað er um hér tengt brjóstagjöf til að auka framleiðslu? Er þetta tekið tímabundið eða út brjóstagjöfina? Hver skrifar upp á svona lyf og við hvern er helst að tala til að fá upplýsingar um aukaverkanir o.fl.?

Takk fyrir mig.

...........................................................................

Það er rétt hjá þér að það eru til lyf til að auka mjólkurframleiðslu. Það mest notaða hér á landi heitir Metoclopramide og er selt undir nafninu Primperan. Það er yfirleitt tekið í 10 mg. töflum, þrisvar sinnum á dag í hálfan mánuð. Þetta lyf er ekki selt sem mjólkuraukandi lyf heldur sem magalyf fyrst og fremst. Það er hins vegar löngu þekkt hliðarverkun þess að auka mjólkurframleiðslu og er talsvert notað sem slíkt. Það er ekki mikið notað hér á landi. Bæði er það að fáar konur þurfa það vegna þess að það er aðallega gefið ef grunur er um hormónaskort svo hefur það líka aukaverkanir eins og flest önnur lyf. Það er m.a. talið auka líkur á þunglyndi og konur sem nýlega hafa fætt eru fyrir í aukinni áhættu. Það þarf læknir að skrifa lyfseðil fyrir lyfinu. Það er til mun betra mjólkuraukandi lyf (Domperidon) sem hefur mjög litlar aukaverkanir en það er ekki selt hér á landi. Kannski vantar þrýsting frá konum. Að mínu mati er alltaf best að reyna til þrautar að auka mjólkurframleiðslu á náttúrulegan hátt áður en farið er að hugsa um lyf. Ef brjóstagjöfin fór vel af stað, barnið saug strax eftir fæðinguna og mjög oft og mikið næstu daga á eftir eru allar forsendur fyrir að hægt sé að auka mjólkurframleiðslu á náttúrulegan hátt. Það sem til þarf er aukin örvun. Í þínum sporum myndi ég reyna að skjóta inn litlum aukagjöfum hér og þar í 3-4 daga. Ef ómögulegt er að vekja barnið eða fá það til að sjúga má mjólka með fingrunum í 10 mínútur hér og hvar milli gjafa. Á kvöldin myndi ég svo nota svokallaða skiptigjöf. Þá er fyrra brjóstið gefið í 15-20 mínútur og svo skipt um brjóst. Barnið látið sjúga í 10 mínútur þar og þá skipt aftur yfir á fyrra brjóstið í 5 mínútur og svo seinna brjóstið aftur í 5 mínútur. Að lokum er síðasta umferð 5 og 5 mínútur. Ef ekkert hefur lagast eftir 4 daga myndi ég ráðleggja þér að byrja á að prófa náttúrulyfjakúr í 3 daga. Jurtin heitir Fenugreek og fæst í hylkjum t.d. í Móðurást og kannski einhverjum heilsubúðum. Ef þetta ekki gagnast og þú ert enn í sömu sporum skaltu leita til læknis eða brjóstagjafaráðgjafa til að fá frekari upplýsingar um mjólkuraukandi lyf.

Með kveðju og von um að náttúrulega aðferðin dugi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. maí 2005.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.