Mjólkuraukandi te

17.07.2006

Sælar og takk fyrir góðan og nytsamlegan vef!

Ég er með einn rúmlega 3ja mánaða strák sem er á brjósti. Hann virðist vera að taka einhvern vaxtakipp svo ljósmóðirin benti mér á að drekka mjólkuraukandi te. Ég fór og keypti Weleda mjólkuraukandi te og drakk. Málið er að ég held að hann hafi fengið í magann. Getur það verið teinu að kenna? Hann þoldi varla lyktina af mér núna rétt fyrir nóttina.

p.s. ég er ekki með nýtt ilmvatn eða „roll-on“ svo að það hlýtur að vera eitthvað annað.

Fyrirfram þakkir og vonir um góð svör, mamman.


Sæl og blessuð „Mamman“!

Það er frekar ótrúlegt að hann þoli ekki teið. Börn eru reyndar oft í pirraðri kantinum á meðan að vaxtarspretti stendur af ýmsum ástæðum. Stundum eykst hlutfall formjólkur í mjólkinni tímabundið og það getur valdið þeim óþægindum í meltingu. Þetta er eins og ég segi tímabundið. Það getur verið erfitt að finna rétta mynstrið á þessum tíma. Mundu að þótt þú sért að fjölga gjöfunum og gefa bæði brjóst og allt það þá skipta langar gjafir á einu brjósti líka máli. Þær verða að koma inn á milli.

Varðandi lyktina af þér þá eru sumar jurtir o.fl. sem smita út um húðina með svitanum. Ef lyktin pirrar barnið þá pirrar hún þig væntanlega líka og þá er auðhætt við það sem skapar lyktina.

Með bestu óskir um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. júlí 2006.