Mjólkurbóla eftir brjóstagjöf

11.07.2010

Takk fyrir æðislegan vef!

 Ég las um mjólkurbólur hjá ykkur. Langar að spyrja því ég er með svona hvíta bólu, sem kom samt alveg sex mánuðum eftir að barnið mitt hætti á brjósti. Nú er þetta búið að vera í sex mánuði. Er normalt að þetta komi svona seint og sé svona lengi? Er þetta samt mjólkurbóla? Ég fór til læknis út af öðru og sýndi henni þetta. Hún sagði bara að þetta væri ekkert til að hafa áhyggjur af. En mér finnst þetta vera búið að vera svo rosalega lengi. Er það alveg eðlilegt með svona mjólkurbólur?


 

Sæl og blessuð!

Já, mjólkurbóla getur vel komið eftir brjóstagjöfina. Það er líka alveg við því að búast að hún sé mjög lengi þegar það er ekkert sérstakt sem þrýstir á. Ef hún á toppi vörtunnar er hún mjólkurbóla, en ef hún er á hlið vörtunnar getur verið um annað fyrirbæri að ræða. Ef hún er á toppnum finnst mér ekkert athugavert við að opna hana og losna þannig við hana. Ég er hins vegar alveg sammála lækninum. Þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af. Hún fer sjálf á endanum.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. júlí 2010.