Mjólkurflæði en neikvætt óléttupróf

02.03.2010

Sælar fróðu konur!

Þannig er mál með vexti að ég á tæplega 2 ára gamalt barn sem var á brjósti til tæplega 1 árs. Núna fyrir stuttu fór ég að finna fyrir svipuðum tilfinningum í brjóstunum og þegar mjólkin var að flæða fram. Það hefur líka lekið úr brjóstunum á mér (en ég þornaði alveg upp og ekkert komið síðan barnið hætti á brjósti og þangað til núna). En ég er búin að taka 2 óléttupróf og þau koma bæði neikvæð. Hvað gæti þetta verið? Er þetta kannski alveg eðlilegt eða ætti ég að leita til læknis?

 


Sæl og blessuð!

Þetta er fyrirbæri sem margar konur kannast við. Oftast er það eitthvað í umhverfinu sem ýtir þessu af stað. Nálægð við lítil börn, hljóð í litlum börnum eða bara að verið er að tala um barneignir og brjóstagjöf. Það getur líka verið að eitthvert hormónaflæði hafi átt sér stað. Þú þarft ekki að leita til læknis nema að þú sért verulega óróleg út af þessu eða finnist ástandið greinilega óeðlilegt.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
2. Mars 2010.