Spurt og svarað

12. júlí 2014

Mjólkurframleiðsla til 6 mánaða

Góðan dag!

Vonandi getið þið útskýrt fyrir mér nokkuð sem ég skil ekki alveg. Á mjög mörgum stöðum á netinu er talað um að börn eigi að drekka 180 ml. per kíló á hverjum sólarhring. Ef miðað er við meðalþyngd skv. vaxtarkúrfu WHO fyrir brjóstmylkinga þá ætti 3 mánaða barn að vega 5,85 kg og þá drekka 1053 ml .á sólarhring, 4 mánaða barn vega 6,4 og drekka 1152 ml, 5 mánaða barn að vega 6,9 kg og drekka 1242 ml. og 6 mánaða barn að vega 7,3 kg og drekka 1314 ml. Hins vegar sýnist mér margar síður segja að móðir mjólki að meðaltali 750-1000 ml. á sólarhring sem væri þá of lítið. Ég spyr því núna er dóttir mín 3ja mánaða og drekkur um 7-8 sinnum á sólarhring (sefur einstaklega vel) en mér finnst hún minna og minna södd og fær kannski ekki nóg. Hvað er rétt í þessum málum? Takk, takk.
Sæl og blessuð!

Það er ekki skrýtið þótt þetta rugli þig í ríminu. En ef ég reyni að útskýra þetta á einfaldan hátt þá væri það eitthvað á þessa leið.Yfirleitt er verið að tala um vökvaþörf á hvert kíló. Það þýðir að ekki er verið að hugsa um næringarinnihald heldur aðeins einsleitan vökva. Það gæti verið vatn og kílóin gætu verið nánast á hvaða spendýri sem er. Þetta er bara sá vökvi sem þarf til að komast af. Þínar tölur passa vel við t.d. þurrmjólk sem er einsleitur vökvi á hvert kíló hjá barni. Móðurmjólk er hins vegar ekki einsleitur vökvi heldur breytir hann sér eftir aldri barnsins. Hitaeiningar og samsetning hinna ýmsu næringarefna breytist með tímanum svo hún henti barninu betur og brjóstin þurfi ekki að stækka. Oft taka börn svokallaða vaxtarspretti á nokkurra vikna fresti. Þá er eins og þau vilji skyndilega drekka mun meira og eða oftar á degi hverjum. Þetta varir í nokkra daga en þá vilja þau fækka gjöfunum aftur í fyrra horf. Það sem hefur þá gerst er að mjólkurframleiðslan hefur aukist um tíma en síðan minnkað aftur og orðið “sterkari”. Hlutfall næringaefna hefur þá breyst og það gefur barninu meiri næringu í sama millilítrafjölda og áður var. Því er það þannig að mjólkurframleiðsla kvenna í millilítrum talið eykst lítið sem ekkert yfir mánuðina en innihald mjólkurinnar breytist heilmikið og hentar alltaf aldri barnsins. Ef þurrmjólk á hinn bóginn sem er alltaf eins er gefin, þá þarf á nokkurra vikna fresti að stækka skammtana. Vona að þetta skýri málin eitthvað.

Með bestu kveðjum,
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. júlí 2014.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.