Spurt og svarað

12. maí 2013

Mjólkurleki í brjóstagjöf

Sælar ljósmæður og kærar þakkir fyrir frábæran vef!
 Ég er með fjögurra vikna dreng eingöngu á brjósti og hef verið með mikinn mjólkurleka síðustu tvær vikurnar eða svo. Það lekur alltaf úr því brjósti sem ég er ekki að gefa úr. Sömuleiðis lekur úr brjóstunum ef geirvörturnar verða stífar eða þegar ég beygi mig fram. Það lekur ekkert í sirka klukkutíma eftir gjöf en eftir það byrjar að leka aftur. Það líða allt frá klukkutími og upp í þrjá tíma á milli gjafa hjá mér, það er ekki neitt fast gjafamynstur hjá okkur ennþá. Ég las um dyrabjölluaðferðina hér og prófaði hana stanslaust í heila viku en hún virkaði nær ekkert. Það lengsta sem ég náði að stöðva lekann  var 10 sekúndur en þá byrjaði aftur að leka. Það skipti engu hversu lengi ég ýtti eða hvort ég ýtti fast eða laust á geirvörturnar. Ég var farin að ýta stanslaust á meðan ég gaf brjóst því það var það eina sem virkaði. Ég nota núna brjóstahlífar eða -púða sem hlífa fötunum við lekanum, en það stöðvar að sjálfsögðu ekki lekann. Gafst ég of snemma upp á dyrabjölluaðferðinni? Lumið þið á öðrum ráðum til að stöðva mjólkurleka? Er það satt að lekinn stöðvist sjálfkrafa þegar barnið er orðið sex vikna? Með fyrirfram þökkum fyrir svar, Leka mamman.

Sæl og blessuð Leka Mamma!
Þetta er fremur hvimleið hliðarverkun brjóstagjafar en þér til huggunar er hún yfirleitt tímabundið vandamál. Kannski hættir lekinn ekki alveg á deginum sem barnið verður 6 vikna en oft á bilinu 6-10 vikur. Það er ekki hægt að sjá að þú hafir gert neitt rangt með dyrabjölluaðferðinni en það er alltaf hluti kvenna sem þarf að halda við hitt brjóstið meira og minna alla gjöfina í marga daga áður en hún fer að virka betur. Þú gætir haft meira gagn af klemmuaðferðinni. Þá notarðu þumal og vísifingur til að taka utan um geirvörtuna og svo klemmirðu saman, það fast að mjólkin komist ekki út. Þessi aðferð gagnast mjög vel í gjöf og sumar konur nota hana líka bara alltaf því hún virkar betur fyrir þær. Reyndu líka að passa að þú sért ekki í offramleiðslu, ekki mjólka þig umfram það sem þú gefur barninu. Það eykur fljótt lekavandamál.
Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi
12. maí 2013.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.