Mjólkurleki löngu eftir að brjóstagjöf er hætt

07.03.2007

Sælar kæru konur!

Mikið notaði ég mér vefinn á meðgöngunni, en dóttir mín er nýorðin 1 árs.

Mig langar að vita hvort ég geti verið eitthvað afbrigðileg, en þannig er að það kemur fyrir að það leki, eða spretta fram mjólkurdropar ennþá. Ef ég tek um brjóstið kemur bara fínn mjólkurlækur. Er eitthvert hormónajafnvægi, eða er þetta eðlilegt?

Vona að þið getið upplýst mig.

Kveðja, Búkolla.


Sæl og blessuð Búkolla.

Það kemur reyndar ekki fram í fyrirspurn þinni hve langt er síðan þú hættir með barnið á brjósti. Það er hins vegar algengt að konur finni fyrir mjólkurframleiðslu í 1 mánuð eftir að hætt er. Gjarnan er hægt að kreista fram eitthvað í 3-4 mánuði. Svo er auðvitað hægt að halda við örlítilli framleiðslu með því að kreista og prufa annað slagið. Þá getur maður verið að þessu í nokkur ár þess vegna. Þannig að þetta er ekkert óeðlilegt. Hættu bara að kreista.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. mars 2007.