Mjólkurleki úr nefi

25.04.2009

Sæl og takk fyrir frábæran vef!

Sonur minn er 2 mánaða og þegar ég gef honum liggjandi þá lekur alltaf mjólkin úr nefinu á honum samtímis. Það er eins og mjólkin fari ekki niður í maga heldur dropar bara stanslaust úr nefinu á meðan hann sýgur og stór pollur myndast ef ég stoppa ekki gjöfina. Þetta gerist bara á vinstra brjóstinu en ekki því hægra. Ég reisi mig alltaf upp þegar þetta byrjar og gef honum sitjandi vinstra brjóstið. Eru einhver ráð við þessu því mig langar til að geta legið í rúminu á nóttunni þegar ég gef honum. Það er svo miklu þægilegra.

Kær kveðja Steinunn.

 


Sæl og blessuð Steinunn.

Þetta er algengara vandamál en margur heldur. Það er því miður ekki til önnur lausn en að hafa barnið meira lóðrétt í gjöfum eða snúa því þannig að mjólkin leki ofan í það. Því legg ég til að þú gefir bara hægra brjóstið á nóttunni.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. apríl 2009.