Mjólkurlosunarviðbragðið tregt

05.11.2014

Komiði sælar góðu konur og takk fyrir góðan vef!

Ég er með 3 mánaða dreng á brjósti. Allt gekk mjög vel fyrsta eina og hálfa mánuðinn en svo fór ég að eiga í mjólkurbóluvandræðum. Með hjálp frábærra ljósmæðra/brjóstagjafaráðgjafa og svo einnig húðlæknis er ég að komast yfir "bóluna". Þetta olli töluverðum kvíða hjá mér og brjóstagjöfin var farin að snúast upp í andstæðu sína. En ég vil til alls vinna að geta haft barnið á brjósti. En nú veit ég ekki hvort ég hef komið af stað öðrum vanda með því að vera að stressa mig. Mjólkurlosunarviðbragðið kemur oft ekki eða mjög seint(hef yfirleitt ekki þurft að bíða nema 2-3 mínútur). Ég reyni mitt besta við að slaka á, hugsa um fossa og læki en það er eins og ég sé bara með hraðahindrun í huganum sem stoppi allt. Þetta er verst á nóttunni en ég gef honum 2 sinnum á nóttu(er að gefa um 9-10 sinnum á sólarhring, annað brjóst í einu). Nú langar mig að vita hvort þetta er eitthvað sem ég á bara ekkert að stressa mig á? Litli kúturinn virðist greinilega eitthvað fá þó það fari ekki allt af stað. Hann sofnar vært aftur og er ekki pirraður. Er eitthvað annað sem er gert til að hjálpa en að slaka vel á, fá sér heitt að drekka o.s frv. Einhvern tímann heyrði ég af nefspreyi sem átti að hjálpa.Er þetta eitthvað sem er ekki óalgengt þegar börnin eru orðin nokkurra mánaða? Ég verð að segja að þetta veldur mér áhyggjum. Það er hunderfitt að vera að gefa á nóttunni og ekkert gerist og maður er búinn að syngja í huganum, dreifa huganum, hugsa rennslið niður í brjóstin og allt þar á milli.

Með góðum kveðjum, Svanhildur.
Sæl og blessuð Svanhildur!

Ég skil vel það það sé hunderfitt að finnast ekkert vera að gerast þegar barnið er lagt á brjóst. En eftir nokkrar vikur á þetta svolítið að vera þannig. Þá hafa brjóstin aðlagast og flestar konur finna hvorki losunarviðbragð eða rennsli. Brjóstin svara snertingu barnsins án þess að móðirin verði vör við nokkuð. Mikilvægast er að horfa á barnið og reyna að ráða í hvað það er að upplifa. Ef barnið er óánægt er fyrst ástæða til að fara að hafa áhyggjur. En það er alltaf gott í brjóstagjöf að slaka á og nota þær aðferðir sem þú nefnir til að hjálpa til. Nefúða er ekki mælt með þegar svo langt er liðið á brjóstagjöfina nema við mjög sérstakar aðstæður. Þannig að það hljómar sem þú sért komin vel að stað með brjóstagjöfina og barnið þrífist og vonandi verður svo áfram.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. nóvember 2014.