Mjólkurmyndun

24.08.2005

Kæra ljósmóðir
Ég á níu og hálfsmánaða dóttur sem ég hafði á brjósti þar til fyrir tveim mánuðum.  Ég framleiddi svo mikla mjólk að læknirinn minn lét mig hafa Parlodel til þess að stöðva hana.  Hún hvarf á þremur vikum.  Ég er búin með viku af öðru pilluspjaldi af Mercilon, ég gleymdi að taka þrjár töflur og er með milliblæðingar.  Núna finn ég fyrir eymslum í brjóstunum og það koma dropar af mjólk úr þeim.  Veistu hvað veldur þessu ?
Bestu kveðjur
29 ára móðir

..............................................

Sæl og blessuð.
Til hamingju með brjóstagjöfina sem nú er reyndar lokið. En þú stóðst þig vel.
Bara þér til upplýsingar þá er eiginlega alveg hætt að ljúka brjóstagjöf með  yfjum. Nú er það gert með svokallaðri rólegri afvenjun sem er náttúrulegri aðferð og betri bæði fyrir móður og barn. Þú manst það bara við næsta barn.
Brjóstagjöfinni lauk þegar þú hættir að leggja barnið á brjóst. Framleiðslan heldur áfram í örlitlu magni í nokkra mánuði og tengist ekki pillutöku þinni. Þannig að það geta komið mjólkurdropar úr brjóstum ansi lengi. Þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Líkaminn sér um að það hætti svo endanlega. Eymsli í brjóstum geta hins vegar tengst hormónasveiflum eins og þú kannski kannast við. Nú ertu bara komin í gamla horfið og til að byrja með verða brjóstin jafnvel enn viðkvæmari en þau voru áður en þú varðst ófrísk.
Vona að þetta séu fullnægjandi svör.

Bestu kveðjur.

Katrín brjóstagjafaráðgjafi,
24.08.2005.