Spurt og svarað

16. maí 2005

Mjólkuróþol

Sæl!

Ég á 2ja mánaða strák sem er eingöngu á brjósti. Getur verið að hann þoli ekki að ég neyti mjólkur og mjólkurvara af því að hann fékk krukkumjólk í ábót þegar hann var nokkurra daga gamall? Honum fór strax að líða betur þegar ég fór í mjólkur og mjólkurafurða bindindi. Reyndar byrjaði ég að gefa honum Minifom dropa 3 dögum seinna þannig að ég veit þá ekki alveg hvoru það er að þakka. Hef samt á tilfinningunni að það sé mjólkin líka.

..............................................................................

Sæl og blessuð.

Já. Mjólkuróþol getur kviknað eftir aðeins eina gjöf af þurrmjólkurábót. Sérstaklega á fyrstu dögunum eru börn viðkvæm fyrir því vegna þess að þá er þarmaveggurinn hjá þeim mjög gegndræpur þ.e.a.s. hleypir mörgum efnum í gegnum sig. Því er verið að reyna að leggja mikla áherslu á að nýfædd börn fái ekki neina ábót af neinu tagi í byrjun. Ef þú ert búin að sannreyna á barninu að því líði betur þegar þú sleppir mjólkurafurðum þá þolir hann sennilega ekki kúamjólkurprótín. Reyndu eins og þú getur að halda þeim úr fæði þínu alveg fyrstu 6 mánuðina. Eftir það er þér óhætt að prófa mjólkurmat en barnið má sjálft ekki fá neinar mjólkurafurðir fyrr en í fyrsta lagi þegar hann er orðinn 1 árs. Og þú manst að mjólk er iðulega í brauðum, kökum og öðrum bakarísmat. Þú getur alveg prófað að sleppa Miniform dropunum og séð til hvað gerist. 

Með bestu óskum um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.