Spurt og svarað

19. júlí 2009

Mjólkurvesen með tvíbura

Sæl og takk fyrir góðan vef!

Ég er að verða búin að lesa hann allann. Mig langar að forvitnast í sambandi við að auka mjólkurframleiðslu. Ég er með tæplega 2 mánaða tvíbura sem fæddust 6 vikum fyrir tímann og voru í kassa fystu dagana. Það ýtti enginn á eftir því að ég mjólkaði mig samdægurs heldur þurfti ég að hafa mikið fyrir því að fá mjaltavél sem kom síðan 8 klst. eftir keisarann. Þeir hafa ekki enn náð
tækninni að sjúga en taka eina gjöf á morgnana þegar mest er til og svo ekki meir. Ég mjólka mig á 3ja tíma fresti nema það líða 5-6 tímar yfir nóttina. Ég er búin að reyna fennel te, weleda mjólkuraukandi te, drekk vel af vatni og hvílist ágætlega. Er reyndar sennilega með sveppasýkingu þar sem ég er með mikla og sára stingi í brjóstunum. Ég er að nota mycostatin en gengur illa að losna við þetta. Ég talaði við ljósmóður og hún ráðlagði mér að prufa Primperan en svo þegar ég nefndi það við lækninn þá segir hann að það virki ekki svona seint bara fyrstu vikuna eftir fæðingu. Ég finn mjólkina minnka með hverjum degi. Var í rúmlega 800 ml. á dag en hef hrapað niður í rúmlega 600 ml. á 3-4 dögum. Byrjaði að taka fenugreek og alfa alfa fyrir 6 dögum og finn ekki mun.Er ekki hægt að taka Primperan þegar liðið er svona á brjóstagjöf? Ég vil alls ekki gefast upp og stefni enn á að koma þeim alveg á spena og losna við mjaltavélina að mestu. Hvað er til ráða?

Kv. Solla.


 

Sæl og blessuð Solla!

Það er ánægjulegt að heyra hvað þú ert dugleg að vinna í brjóstagjöfinni þrátt fyrir erfiðleika. Þú þarft sennilega núna að leggja aðaláhersluna á örvun mjólkurframleiðslu með börnunum. Nú líður að þeim tíma að brjóstin fara að svara illa mjaltavélinni og þá minnkar framleiðslan jafnt og þétt án annarrar örvunar. Þetta þýðir að þú verður að leggja þau eins oft á brjóst og þú mögulega getur og láta þau sjúga. Þannig styrkjast þau í réttu sogi og framleiðslan eykst. Það sem þau ekki ná með beinu sogi ættu þau að fá með hjálparbrjósti. Þá liggur slanga fram á vörtuna og þau verða að sjúga vörtuna með slöngunni til að fá næringuna sína. Þau mega ekki fá pela því þá fjarlægjast þau brjóstið meir og meir.

Það er mikilvægt að meðhöndla sveppasýkinguna rétt og vel. Bera á báðar vörtur og upp í bæði börnin eftir hverja gjöf.

Síðan held ég það gæti hjálpað þér að fá Primperan og það ætti að virka vel hjá þér núna, en þú hefur í huga að það virkar aðeins með mikilli örvun á brjóst.

Með von um að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. júlí 2009.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.