Móðurmjólk úr örbylgjuofni

20.11.2011

Á fæðingardeildinni er uppi miði um að alls ekki megi hita brjóstamjólk í örbylgjuofni en á vökudeild er vani að hita mjólkina í örbylgjuofni. Hvað er slæmt við að hita hana í örbylgjuofni og af hverju er þessi áherslumunur milli deilda? Ef þetta er óhollt af hverju fá þá litlu fyrirburarnir og veiku börnin á vökudeild ekki mjólk sem er öðruvísi upphituð?

 


Sæl og blessuð!

 

Það er alveg rétt hjá þér að þessi munur milli deilda hefur viðgengist í mörg ár. Það er almennt viðurkennt að það eru ýms efni í móðurmjólk sem ekki þolir örbylgjur. Það á meðal eru mótefni og margar lifandi frumur sem er mjög mikilvægt fyrir börn að fá. Því er aldrei mælt með upphitun í örbylgjuofni. Ég get ekki svarað fyrir Vökudeild. Þekkingin er þar til staðar en starfsfólk hefur bent á að vegna álags og tímaskorts hafi það ekki tíma til að hita mjólkina öðruvísi. Þetta er því þörf ábending hjá þér. Þarna fá fyrirburar og veik börn ekki eins góða mjólk og hún gæti verið.

Takk fyrir þetta.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. nóvember 2011.