Spurt og svarað

29. ágúst 2005

Munurinn á þurrmjólk og brjóstamjólk

Sælar!

Mig langar að vita hvað það er nákvæmlega sem gerir brjóstamjólkina svona miklu betri en þurrmjólk. Ég hef séð því slegið fram í svörum á þessari síðu að ef barnið eigi að ná bestum mögulegum þroska o.s.frv. þá eigi að hafa það eingöngu á brjósti til 6 mánaða aldurs samanber eftirfarandi tilvitnun úr svari: „Mér er hins vegar alveg fyrirmunað að sjá hvaða freisting er fólgin í því að setja barnið á þurrmjólk og hætta brjóstagjöf. Þú ert í þeim sporum að vera að veita barninu þínu möguleika á bestum þroska bæði andlegum og líkamlegum. Af hverju ættirðu að vilja breyta því?“ Ég hef spurt bæði lækna og hjúkrunarfræðinga af þessu og þeir eru ekki sammála því að þetta skipti svona miklu máli. Okkur mæðrunum sem gefum börnunum okkar þurrmjólk líður að sjálfsögðu mjög illa af því að lesa svona staðhæfingar. Mér hefur verið sagt af sérfræðingum að barnið fæðist með öll mótefni móður og haldi þeim fram að 6 mánaða aldri þannig að væntanlega eru það ekki mótefnin sem verið er að tala um. Þegar svona staðhæfingum er slegið fram finnst mér nauðsynlegt að það sé útlistað nákvæmlega hvað það er sem barnið er að fara á mis við. Ef verið er að tala um rétt hitastig og að mjólkin sé sýklafrí o.s.frv þá ætti að vera hægt að ná fram því markmiðið með þurrmjólk líka þannig að ekki getur það verið eini munurinn. Maður hefði þá líka haldið að allir sem væru ættleiddir t.d. ættu að vera á einhvern hátt veikari fyrir þar sem þeir hafa aldrei fengið dropa af brjóstamjólk. Hefur verið sýnt fram á það?

Það ætti að gæta fyllstu varúðar þegar komið með svona staðhæfingar og rök fyrir þeim, því það lætur sumar okkar  finnast við ansi misheppnaðar ef barnið mun aldrei ná sem bestum mögulegum þroska vegna erfiðleika með brjóstagjöf. Persónulega gekk ég í gegnum erfiða fæðingu, missti mikið blóð, var með blöðrur á eggjastökkum áður og hormónabrengl vegna þessa og brjóstin á mér finnst mér ekkert hafa stækkað eftir fæðingu. Svo fékk ég líka brjóstabólgu með tilheyrandi hita og beinverkjum þegar barnið var 3 vikna.  Gætu þetta verið ástæður þess að mér gekk illa með brjóstagjöf? Þetta var bara farið að vera þannig að ég var með barnið stanslaust á brjósti því það virtist aldrei fá nóg, það hafði bara þyngst um 50 gr milli eins og tveggja vikna aldurs og grét sárt, þá fór ég að hafa áhyggjur. Ég ákvað að prufa þurrmjólkina og ég hafði aldrei séð neinn drekka af jafnmikilli áfergju og þegar hann fékk hana fyrst. Núna fær hann bæði brjóst og þurrmjólk. En hann fær þó aðallega bara annað brjóstið því það hefur alltaf verið stærra, við komum okkur betur fyrir þegar hann fær úr því og ég er ennþá sár í hinu. Barnið er 2 mánaða.

Með fyrirfram þökk.

....................................................................

Sæl og blessuð!

Ég ætla að reyna að útskýra muninn á brjóstamjólk og þurrmjólk í eins stuttu máli og hægt er þótt ég viti að það verði langt. Það er alveg rétt hjá þér að þetta snýst ekki um rétt hitastig og það er ekki erfitt að hafa þurrmjólk mjög sýklafáa. Aðalmunurinn liggur í efnum, efnasamsetningu og á hvaða fomi efnin eru. Í móðurmjólk eru yfir 400 efni en í þurrmjólk um 40. Flest efni brjóstamjólkur eru sérlega hentug fyrir meltingarfæri ungbarns og styrkja varnir þeirra gegn skaðlegum sýklum. Mörg efnanna er ógjörningur að framleiða annars staðar en í mannslíkamanum. Öll efni brjóstamjólkur eru í réttu magni fyrir barnið miðað við aldur þess og þarfir. Magn og hlutfall breytist síðan eftir því sem það eldist og þarfirnar breytast. Það er rétt sem þér hefur verið sagt að barn fæðist með öll mótefni sem eru í blóði móðurinnar fyrir fæðingu og þau haldast þar nokkuð lengi. En sýklar hætta ekki að sýkja þótt fæðing sé afstaðin. Við verðum fyrir stöðugum árásum sýkla gegnum allt lífið. Barnið hefur engin mótefni gegn þessum nýju árásum nema það sé á brjósti. Það ber að athuga að brjóstabörn veikjast líka. Brjóstamjólk kemur ekki í veg fyrir sýkingar heldur dregur aðeins úr líkunum á veikindum og alvarleika þeirra.
Það hafa alltaf verið til konur sem ekki hafa getað haft börn sín á brjósti einhverra hluta vegna. Þær hafa gripið til annarra ráða og nú á síðustu áratugum hefur tekist að framleiða ungbarnamjólk úr kúamjólk sem líkist móðurmjólk að mörgu leyti. Hún er það besta sem við höfum möguleika á að gefa barni sem ekki fær brjóstamjólk og þau dafna vel af henni. En hún getur aldrei komið í stað móðurmjólkur. Það þýðir ekkert að blekkja sig með það. Það er bara staðreynd og ekkert sem þarf að fá sektarkennd yfir.

Rannsóknir hafa sýnt að börn sem fengu brjóstamjólk skoruðu hærra á gáfnaprófi en þau sem fengið höfðu þurrmjólk. Þetta finnst mörgum ekkert merkilegt þar sem það var löngu vitað að það er ekki greindarvísitalan sem skiptir máli heldur hvernig við notum þær gáfur sem okkur eru gefnar og hæfileikana sem við höfum.

Konur sem reyna brjóstagjöf eru aldrei misheppnaðar. Þær eru hetjur. Þær reyna af öllum mætti þrátt fyrir mótstöðu og erfiðleika. Þær leggja yfirleitt meiri vinnu, erfiði og sársauka á sig en konur sem gengur vel hjá. Þær gera sitt besta og geta yfirleitt veitt börnum sínum það mikilvægasta sem er broddurinn á fyrstu dögunum. Stundum gengur brjóstagjöf í nokkrar vikur áður en erfiðleikarnir hafa yfirhöndina og hver dagur skiptir máli hvort sem er með eða án þurrmjólkurábótar. Þessar konur eiga allar mikið hrós skilið. Konur sem byrja brjóstagjöf eiga aldrei að þurfa að finna til sektarkenndar. En það eru til konur sem alls ekki vilja hafa á brjósti og vilja ekki reyna. Þær sjá fram á að það trufli lífstíl sinn og sé svo mikið vesen. Þeim er nokkuð sama hvaða næringu börn fá og finnst það ekki mikilvægt atriði svo fremi það sé fljótafgreitt og börnin sofi mikið. Það eru ekki margar svona konur á Íslandi sem betur fer. En þær eru til og það er gagnslaust að berja höfðinu við steininn með það frekar en annað. Það er til þessara kvenna sem ég er að reyna að ná til að fræða um mikilvægi brjóstagjafar.

Varðandi þína brjóstagjöf þá virðist sem þú hafir haft á brjósti a.m.k. 3 vikur sem er gott. Ennþá betra er að þú virðist ennþá með á brjósti að hluta til. Þú hefur þó greinilega fengið þinn skammt af erfiðleikum og kannski ekki þá hjálp sem þú þurftir. Ég vona að þér takist að örva upp brjóstið sem þú gefur minna.

Og í lokin langar mig að segja þér að meirihluti ættleiddra barna hafa fengið einhverja brjóstamjólk hjá móður sinni og jafnvel hafa sumar konur sem ættleiða börn á brjósti með því að örva upp mjólkurframleiðslu hjá sér.

Með von um að allt gangi þér í haginn í framtíðinni.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. ágúst 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.