Næg mjólk en erfiðleikar við brjóstagjöf

27.05.2006

Sælar og takk fyrir æðislegan vef!

Ég er í frekar miklum vandræðum með brjóstagjöfina og er eiginlega alveg hætt að skilja hvað barnið mitt vill. Strákurinn er orðinn 3 mánaða og brjóstagjöfin gekk eiginlega bara vel fyrsta mánuðinn og síðan þá finnst mér þetta næstum því bara „basl“. Þetta byrjaði á því að hann vildi ekki sjá brjóstið, eiginlega bara upp úr þurru. Hann hafði fengið pela einu sinni með brjóstamjólk þegar ég var í burtu en það var löngu áður. Ég þurfti að reyna alls konar „trix“ til að koma honum á brjóstið, og það gekk eftir langa baráttu. Síðan þá finnst mér hann taka brjóstið í eðlilegri stellingu bara þegar honum sýnist, yfirleitt vill hann bara drekka liggjandi. Hann grætur oft við gjöfina og mér er eiginlega hætt að finnast þetta skemmtilegt lengur, ég kvíði alltaf fyrir næstu gjöf. Ég er líka hætt að vita hvenær hann er svangur því yfirleitt þegar ég legg hann á brjóstið þá vill hann ekki sjá það! Vandamálið er ekki ónóg mjólk því ég sprauta í allar áttir! Hann drekkur hinsvegar mjög vel á nóttunni, en hann vaknar svona 1-2 tvisvar til að drekka.

Vonandi getið þið aðstoðað mig því ég er alveg að fara yfir um, ég vil alls ekki hætta með hann á brjósti en þetta er bara orðið pirrandi!

Takk, takk.


Sæl og blessuð.

Það virðist sem eitthvað sé að trufla hann í gjöfinni. Það er ýmislegt sem bendir til þess að það sé of hratt losunarviðbragð (mjólk sprautast í allar áttir, hann er 3ja mánaða, grætur við brjóstið, vill liggja í gjöf og góður á nóttunni).

Þú getur leitað upplýsinga um þetta fyrirbæri hér á vefnum en í stórum dráttum geturðu lagað þetta með því að klípa brjóstið saman í byrjun gjafarinnar.Þá seturðu þumalinn öðru megin á brjóstið og hina puttana hinu megin eins nálægt vörtunni og þú kemst fyrir barninu. Svo klípurðu bara þéttingsfast og heldur klipinu í 1-2 mínútur á meðan aðal flæðið er að ganga yfir. Eins og þú ert búin að komast að þá er betra að vera liggjandi því flæðið er hægara þannig og þú skalt endilega nýta þér það. Þetta er oft bara tímabundið ástand sem börn vaxa upp úr.

Gangi þér vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. maí 2006.