Nægir brjóst eða þarf graut líka?

04.05.2006

Halló og bestu þakkir fyrir frábæran vef!

Mig langar að fá smá ráðleggingar varðandi dóttur mína. En þannig er að hún verður 5 mánaða núna í byrjun maí og er búin að vera eingöngu á brjósti frá fæðingu. Ég hafði hugsað mér að hafa hana eingöngu á brjóstinu til 6 mánaða aldurs, en þessa dagana er hún farin að vakna svo oft á nóttunni til að drekka og virðist vera alveg sársvöng. Hún hefur þyngst alveg eðlilega frá fæðingu og fylgir sinni kúrfu og brjóstið hefur alveg dugað henni, ég hef mjólkað mjög vel og ekkert yfir því að kvarta. Hún sofnar alltaf á milli kl. 20 og 20:30 á kvöldin, vaknar fyrst í kringum miðnættið, svo aftur milli 3 og 4 og svo á klukkutíma fresti til 7 en þá vaknar hún. Hún var að vakna áður svona einu sinni til tvisvar til að drekka sem er talið eðlilegt hjá þessum aldri, en mér finnst 4-5 sinnum fullmikið.

Eigið þið einhver ráð handa mér þannig að ég geti beðið með graut eða ábót í mánuð í viðbót, eða á ég einfaldlega að prófa að gefa henni og athuga hvort að hún sofi betur? Ég tek það fram að hún er mjög dugleg að drekka á daginn og drekkur vel áður en hún fer að sofa á kvöldin. Eins sefur hún mjög vel, fyrri dagdúrinn er u.þ.b 3 tímar en það gengur ekki eins vel eftir hádegið, þá er hún að sofa svona 1½ tíma, stundum styttra og stundum lengur.

Með von um smá aðstoð, kær kveðja Heidda.


Sæl og blessuð Heidda.

Ég mæli eindregið með því að þú reynir að bíða með ábót og matargjafir þar til hún er orðin 6 mánaða. Það getur skipt hana máli seinna meir. Algengasta ástæðan fyrir fjölgun næturgjafa er að daggjafir minnka. Þú segir hana drekka vel yfir daginn sem er gott en athugaðu hvort einhver breyting hefur orðið samt. T.d. breyttir tímar, breyttur svefnstaður? Síðan virðist hún fá lítið hjá þér á kvöldin þannig að það er spurning hvort þú getur breytt skipulaginu þá, þannig að aukagjöf kæmi inn einhverntíma á kvöldinu. Ef þú gefur bara 1 brjóst á miðnætti, prófaðu þá að reyna að gefa bæði brjóst í þeirri gjöf.

Vona að þetta hjálpi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
4. maí 2006.