Spurt og svarað

04. apríl 2007

Næring móður með barn á brjósti

Hæ, hó frábæru ljósmæður og brjóstagjafaráðgjafar!

Það er frábært að leita til ykkar. Ég er með nokkrar spurningar. Ég á fimm mánaða gamalt barn og er með hann á brjósti. Eftir að ég átti hann missti ég matarlystina mikið af einhverjum ástæðum og er svona hægt og bítandi að reyna að ná henni upp aftur. Það sem fólk hefur verið að segja við mig er að ég verði að borða vel og svoleiðis svo að barnið fái næringu úr mjólkinni því annars sé engin næring.  Er þetta rétt? Ég hélt að barnið fengi sína næringu alltaf, það væri bara ég sem fengi hana ekki?

Annað mál. Barnið er farið að fá graut og mauk að borða og tekur því mjög vel. Ég ætlaði að reyna að hafa hann eingöngu á brjósti til 6 mánaða aldurs en hann fór að gráta svo sárt á kvöldin og allt í einu uppgötvaði ég að hann var bara svangur. Ég var samt alltaf dugleg að gefa honum brjóstið og hafa hann lengi á og svoleiðis þannig að mér fannst hann þurfa meiri fyllingu bara. Núna fer að líða að því að hann fari í næturpössun í fyrsta sinn og hann vill alls ekki þurrmjólk, finnst hún bara ógeðsleg. Ég var því að velta fyrir mér, er það eina sem ég get látið hann hafa með sér að borða milli grautarmáltíðanna brjóstamjólk og hvað á ég þá að reyna að ná miklu? Hvað er hægt að nota annað en þurrmjólkina?

Vona að þetta skiljist, hef svolitlar áhyggjur af þessu öllu saman.

Bestu kveðjur, ED.


Sæl og blessuð ED.

Það er alveg rétt skilið að það kemur fyrst og fremst niður á þér sjálfri ef þú borðar ekki rétt á meðan barnið er á brjósti. En það er náttúrlega ekkert vit að ætla að hugsa um barn slappur, magur, blóðlaus og í bætiefnaskorti. Þannig að þess vegna er alltaf verið að hvetja mæður til að borða almennilega. Og eins og alltaf er það ekki magnið sem skiptir máli heldur samsetningin. Þú átt ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þessu. Lystin á að kalla eftir því sem vantar. Varðandi hitt vandmálið þitt þá er best að hann fái bara brjóstamjólk að drekka í bili. Mörg börn fúlsa við þurrmjólk og öðrum mjólkurblöndum til að byrja með eða jafnvel alveg til frambúðar og það er í góðu lagi. Þau þurfa ekkert á þeim að halda. Þegar þú ferð að bjóða aðra drykki máttu alveg byrja á vatni, grænmetis eða ávaxtasöfum.

Ef þú ert að mjólka þig fyrir hann til að eiga í pössun er ágætt að eiga 80-150 ml. í skammti.  

Með von um að þetta hjálpi.     

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
4. apríl 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.