Spurt og svarað

06. júlí 2006

Næring ungbarna fyrr og nú

Hæ!

Ég hef undanfarið verið að velta því fyrir mér af hverju það má ekki gefa börnum graut sem eru yngri en 3 mánaða. Ég er komin á fertugsaldurinn og þegar ég var eins og hálfs mánaðar þá var mér gefin grautur, bara ein teskeið á dag. Af hverju er svona mikið talað um það í dag að þetta sé bannað.
Hafa einhverjar rannsóknir sýnt fram á að þetta sé slæmt fyrir börn. Annað sem ég var að velta fyrir mér er að gefa barninu mínu graut með brjóstamjólkinni eftir 4 mánaðar aldur.  Nú er mér sagt að það sé ekki sniðugt, að barnið eigi bara að vera á brjósti.


Sæl og blessuð!

Það er rétt hjá þér að hér áður fyrr var mjög snemma byrjað að gefa börnum alls konar mat. Líklegasta orsökin er sú að konum lá mjög á að losna undan bindingunni við að hafa börn á brjósti. Þær þurftu sem fyrst að byrja vinnu og á þeim lá yfirleitt skylda mikilla og erfiðra heimilisstarfa. Þetta var á þeim tímum sem fram var komin þekking og fæða sem var hægt að gefa ungbörnum án þess að þau beinlínis dæju af henni eins og hefði gerst þar áður. Það var í sjálfu sér ekkert sem benti til þess að það væri neitt slæmt við að gefa þeim þessa fæðu svo eðlilegt var að margar mæður teldu það í besta lagi.

Síðan kom fram sú þekking að geta rannsakað betur áhrif ýmissar fæðu og atlætis ungra barna og þá kom í ljós að þetta var ekki heppilegt nema síður væri. Frá náttúrunnar hendi er börnum ætlað að drekka brjóstamjólk frá móður sinni ef þess er völ. Það virðist henta þeim allra best til að þroskast sem allra best, líkamlega, andlega og félagslega. Mikilvægast er þetta talið fyrstu dagana, vikurnar og mánuðina. Meltingarfæri barna eru hönnuð til að taka við brjóstamjólk og þau nýta hana á ótrúlega glæsilegan hátt. Á hinn bóginn eru þau viðkvæm fyrir öllu öðru í meltingarfærin. Í besta falli nýtist þeim önnur fæða afar illa og hún hefur truflandi áhrif á þroskann en stundum er önnur fæða þeim beinlínis hættuleg og getur leitt til veikinda.

Það er mikill fjöldi rannsókna að baki þeirri alþjóðlegu stefnu sem nú er í gildi en hún er sú að börn séu eingöngu á brjósti fyrstu 6 mánuði lífs síns og áfram á brjósti með annarri fæðu í 2 ár. Eingöngu á brjósti þýðir nákvæmlega það. Barnið á ekki að fá neitt annað. Flestir gera undantekningu á vítamíngjöfum og lyfjagjöfum ef þeirra er þörf en þar fyrir utan ekkert. Ekki einu sinni vatnssopa.
Þannig að við konur í dag eigum að nýta okkur aðstöðu okkar í nútímanum að hreinlega hafa tíma og aðstöðu til að gera það allra besta sem við getum gert fyrir börnin okkar og hafa þau á brjósti og geta verið hjá þeim eins lengi og við getum í byrjun.

Með ósk um gleðilega brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. júlí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.