Spurt og svarað

23. júlí 2006

Næringargildi brjóstamjólkur fyrir 14 mánaða

Heil og sæl!

Mig langar til að vita hvort næringareiginleikar brjóstamjólkurinnar minnki með mánuðunum, þ.e.a.s. er mesta næringin fyrstu mánuðina og fer svo minnkandi eftir 6 mánuði? Ég er með eina stúlku sem er að verða 14 mánaða og er hún enn á brjósti og allir eru að tuða yfir því að það sé engin næring í þessu hjá mér lengur!

Mjólkurkonan.


Sæl og blessuð „mjólkurkona“.

Til hamingju með langa og vonandi ánægjulega brjóstagjöf. Svarið við þinni spurningu er í stuttu máli: Nei, næring brjóstamjólkurinnar minnkar ekki með mánuðunum. Hún er hins vegar breytt. Það er kannski betra að útskýra það með því að samsetning hennar er önnur. Mjólk sem kona framleiðir fyrir 10 daga gamalt barn hefur öll næringarefni fyrir það og hlutföll þeirra eru þannig að þau henta svo ungu barni einstaklega vel. Mjólk sem kona framleiðir fyrir 10 mánaða barn hefur líka öll næringarefni sem það þarfnast en hlutföllin eru önnur vegna þess að þarfir barnsins eru aðrar. Magn mjólkurinnar er líka bara hluti af fæðinu á móti öðru fæði. Það væri kannski hægt að líkja þessu við fullorðinn sem alltaf borðaði sinn gamla góða heimilismat (næringarríkur,góður, fjölbreyttur) en tæki svo ákvörðun um að fara yfir á veitingastaðafæði (næringarlega rétt saman sett, flott). Hann myndi byrja á því að borða úti einu sinni í viku en fljótlega fjölgaði máltíðunum á veitingastöðunum. Það myndi ekki þýða að heimilismaturinn sem hann borðaði sundum hefði eitthvað rýrnað að gæðum. Þvert á móti stæði hann alltaf fyrir sínu og jafnvel væri hægt að hafa hann meira eins og hann vildi. Gæði veitingastaðamatarins færi auðvitað eftir gæðum veitingastaðanna. Ef um mjög lélega veitingastaði væri að ræða gæti viðkomandi hugsanlega verið betur settur á gamla heimilismatnum. Ég vona að þú skiljir samlíkinguna.

Endilega reyndu að leiðrétta þetta fólk sem er að tuða í þér. Það er leiðinlegt fyrir það að fara í gegnum lífið með slíkan misskilning í höfðinu.

Bestu brjóstagjafakveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. júlí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.