Næringarþörf mjólkandi mæðra

23.12.2005

Hæ, hæ og takk fyirr góðan vef!

Ég er með barn á brjósti og er að velt fyrir mér hvert hið almenna viðmið um hitaeiningaþörf kvenna með barn á brjósti er á dag. Hef lesið hér svör um að konur þurfi á meiri orku að halda við brjóstagjöf en á meðgöngu en hvergi sé ég neitt um fjölda hitaeininga. Er ekki til eitthvað viðmið, þó auðvitað sé það einstaklingsbundið?

Kveðja, mamma í hugleiðingum.

..................................................

Sæl og blessuð mamma í hugleiðingum!

Það er ljóst að konur þurfa á meiri orku að halda í brjóstagjöf en annars. Brjóstagjöf er orkuríkt ferli hvort sem talað er um framleiðsluna sem og „afgreiðsluna“. Þetta er talsvert magn af mjög næringarríkum vökva sem fer beina leið út úr líkamanum, en ekki eins og þvag eða sviti sem í eru úrgangsefni. Þetta viðmið hefur lítið breyst gegnum árin en útreikningar á grunn hitaeiningaþörf hafa svolítið sveiflast. Þegar þú ert búin að reikna út grunnþörf þína t.d. æskilegan kílóafjölda sinnum hreyfistuðul (u.þ.b. 37 fyrir meðalhreyfingu) hjá konu á þessum aldri þá bætirðu við 500 hitaeiningum á dag fyrir brjóstagjöfina og þá ertu komin með dagsþörfina. Að bæta við 500 hitaeiningum er svona viðmiðunartala en maður hefur þó séð lægri tölur allt niður í 300 hitaeiningar á dag. Það finnst mér trúlegt að sé algjört lágmark og þarf að fara saman með mjög góðum aðstæðum.

Vona að þetta hjálpi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. desember 2005.