Spurt og svarað

13. mars 2005

Næringin í móðurmjólkinni

Sæl.

Ég á 10 vikna stelpu og við búum á Spáni. Vandamál okkar er það að tengdamamma mín kemur um daginn og segir mér að stelpan mín sé of mjó og barnaleg fyrir að vera næstum 3 mánaða. Stelpan mín var í vondu skapi þennan dag (eins og kemur fyrir okkur öll) og þá byrjaði hún að tala um að ég þyrfti örugglega að fara að gefa henni ábót með því útaf einhverju væri hún að væla. Ég sagði henni að svo væri ekki. Stelpan mín væri bara nett með spóaleggi en annars mjög gott barn sem sefur frá 21 á kvöldin til 5 á morgnana til að drekka og svo sofnar hún aftur pg drekkur svo miklu meira á daginn á svona 3 tíma fresti til að bæta nóttina upp! Hún pissar mjög vel og kúkar 2 í viku. En tengdó gafst ekki upp og sagði að það gæti vel verið að mjólkin mín innihéldi ekki nógu mikla næringu og tók dæmi:þegar þú borðar salat þá verður þú aftur svöng eftir smá stund en þegar þú borðar nautasteik þarftu ekki að borða strax aftur - það er það sama með mjólkina að það er til mjólk sagði hún sem gerir börnin ekki södd. Er þetta rétt?
Ég mjólka mjög vel, borða mjög hollan mat því að gefa henni brjóst er mér mikilvægt. Hvað segir þú um þetta? Þó að ég sé ekki sammála tengdó þá pantaði ég mér tíma í aukavigtun í dag en ég veit að stelpan mín er að þyngjast og stækka vel! Hvað eiga börn um 10 vikna aldur að þyngjast á viku. (mín fæddist 3090 og er núna 4,5 kg.).

Með mikla von um svar. Kveðja frá Spáni.

.......................................................................

Sæl og blessuð héðan frá klakanum.

Samkvæmt lýsingu þinni er um ósköp eðlilegt og fínt brjóstabarn að ræða. Þau eru yfirleitt spengilegri en ábótarbörn.

Oft fara konur sem illa gekk sjálfum með brjóstagjöf þá leiðina að benda öðrum á að gefa ábót þannig að þeirra brjóstagjöf eyðileggist líka. Það er erfitt að skilja hvað þeim leggst til en með vel völdum orðum og rökum er stundum hægt að benda þeim á að verið sé að gera það sem heppilegast er fyrir barnið og komið þeim til bests þroska.

Jú að sjálfsögðu inniheldur mjólkin þín öll þau efni sem barnið þarf á að halda og í nákvæmlega réttum hlutföllum. Þú finnur hvergi á jarðríki fæðu sem næringarlega kemst með tærnar þar sem hún hefur hælana. Allt annað sem þér gæti dottið í hug að gefa barni á þessum aldri í ábót væri lélegra næringarlega séð. Móðurmjólk skiptist í formjólk og eftirmjólk. Það mætti kannski nota líkinguna um salatið og nautasteikina um það. Fyrstu mínúturnar í gjöfinni fær barnið forrétt (salat) og svo seinna í gjöfinni fær það aðalrétt (nautasteikina) sem er mun næringarríkari mjólk. Það má líka segja að í lokin fái það desert þegar mjólkin er hvað feitust. Reyndu að finna annan vökva sem getur líkt eftir þessu.

Þyngdartölurnar sem þú nefnir eru eftir mínum útreikningum í fínu lagi enda ertu náttúrulega með þetta allt á hreinu. Þú þurftir bara smá staðfestingu. Eftir 3 mánuði fara brjóstabörn að hægja á vexti og þá er nóg að þau þyngist um 85 gr. á viku. Mjólkurskammtarnir sem þau taka stækka lítið en samsetning mjólkurinnar breytist eftir aldri barnsins og þörfum. Ábótarbörn þurfa hins vegar sífellt stærri skammta því það er erfitt að breyta hlutföllum fæðu þeirra rétt. Það er talin ein hugsanlegra ástæða fyrir því að þeim er hættara við offitu á fullorðinsaldri.

Ég vona að þér takist að telja tengdamóður þína á þitt band á jákvæðan hátt því þær eru jú góður stuðningur þegar þær eru í essinu sínu. Segðu henni bara að þú ætlir að hafa barnið þitt eingöngu á brjósti í 6 mánuði og ekki einn dropi af neinu öðru fari inn fyrir þess varir. Það getur verið svolítið sjokk að heyra það fyrst en þegar hún er búin að melta það á hún eftir að fylgjast með í forundran hvað barnið þrífst vel. Hver veit nema hún fari að vera montin yfir hve vel þér gengur (því innst inni er hún jú montin yfir því).

Með bestu kveðjum til Spánar og til hamingju með brjóstagjöf sem gengur svona vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.