Spurt og svarað

23. febrúar 2006

Næturgjafir - er að byrja að vinna

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég er í smávegis vandræðum. Á dóttur sem er nýorðin 6 mánaða, hún er á brjósti og það hefur gengið mjög vel. Hún fær smávegis grænmetismauk síðdegis og graut fyrir svefninn, en er annars bara á brjóstinu. Vandamálið er að ég er að fara að vinna eftir mánuð og vinnan mín er þannig að ég er á vakt annað hvort frá 8-16 eða 16-8. Stelpan drekkur enn tvisvar á nóttu (stundum þrisvar) og ég er að velta því fyrir mér hvernig er best að snúa sér með þetta þegar vinnan byrjar. Sé ekki fram á að geta haft hana áfram á brjósti vegna vinnutímans. Spurningin er, þarf ég að byrja að taka út næturgjafirnar fyrst? Er svo hrædd um að hún fari að vera drekkandi alla nóttina ef ég held þeim inni en tek út daggjafir. Hún hefur átt við heilmikinn svefnvanda að stríða, þurft lítinn svefn, sefur laust og vaknar í tíma og ótíma. Er þess vegna frekara stressuð að fara að hrófla við þessu. Spurningin er sem sagt þessi, hvernig er best að draga rólega út brjóstagjöf hjá barni sem drekkur enn þá svona oft á nóttunni?

Bestu kveðjur og þakkir! 

........................................................................... 

Sælar!

Ég held að það sé skynsamlegt að byrja á því að taka út næturgjafirnar eina í einu í nokkra daga jafnvel að láta líða rúma viku til tvær á milli. Núna má hún fara að borða fjölbreyttan mat og þarf þess vegna ekki að sjúga brjóstið á nóttunni. Eftir nokkrar vikur er best að hafa engar gjafir á nóttunni, næringarlega séð þarf hún þess ekki. Gott er að hafa reglu á dagmynstur barnsins - að barnið vakni á sama tíma á morgnanna (t.d. kl 8 eða 9) og hafa 2 daglúra, einn fyrir hádegi og annan eftir hádegi. Helst að láta barnið ekki sofna eftir kl 16.00 og gott ef börnin fara í rúmið um 20 til 21.00, til þess að barnið sofi yfir nóttina. Það hefur reynst best ef mæður hafa tekið út eina gjöf í einu og minnkað brjóstagjöfina mjög rólega - ekki hætta snögglega. Stundum tekur þetta ferli 2 til 3 mánuði. Margar mæður hafa með sér mjaltavél í vinnuna og mjalta sig í einn pela á meðan þær eru að komast yfir þetta tímabil. Það eru góðar leiðbeiningar á síðunni www.foreldraskóli.is um svefn og næringu ungbarna og stundum er boðið upp á fræðlsu fyrir mæður um þessi atriði sem er þá auglýst á síðunni.

Bestu kveðjur,

Ingibjörg Eiríksdóttir, ljósmóðir,
23. febrúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.