Næturgjafir og sogþörf

26.09.2009

Góðan daginn og takk fyrir góðan vef!

Dóttir mín er 2 og hálfs mánaða og dafnar vel. Hún hefur ekki tekið snuðið hingað til (gerði það reyndar fyrstu vikuna áður en að brjóstagjöfin komst í gang fyrir alvöru). En hún virðist hafa mikla sogþörf og er alltaf með putta eða hnefa upp í sér. Er þetta óhollt eða getur það skaðað hana á einhvern hátt? Er þetta merki um að hún sé svöng? Eru einhver ráð að láta hana taka snuð? Hef prófað nokkrar tegundir og prófa daglega. Hún tekur við en japlar bara - eins og hún viti ekki hvað hún eigi að gera við þetta og brosir bara. Á nóttinni vakna ég oft við það að hún er vakandi að sjúga á sér höndina. Þá tek ég hana oftast upp og gef henni. Hún hefur þá ekkert verið að kvarta  en ég gef mér að hún sé svöng. Á ég að láta hana eiga sig eða er rétt hjá mér að rífa hana upp? Hún sofnar á milli kl. 21 og 22 á kvöldin og ég gef henni fyrstu gjöf á milli kl. 2 og 4. Hvenær eiga börn að geta verið án gjafa á nóttinni(hún er komin yfir 6 kg)?

Kveðja móðir.

 


Sæl og blessuð móðir!

Það er ekkert óhollt fyrir börn að naga á sér hendurnar heldur bara ósköp eðlilegt. Þú þarft bara að þekkja hvernig hún sýnir að hún sé svöng. Mér finnst líka gott að þú skulir taka hana upp og gefa henni á nóttunni þegar hún vekur þig svona pent. Það er ómögulegt að segja hvenær hún getur verið án gjafar á nóttunni. Alla vega ekki næstu mánuði(og ég þekki suma 65 ára – en ekki út í það).Flest börn taka snuð á endandum sé þeim boðið það nógu oft og lengi. Þetta fer meira eftir vilja foreldranna.

Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. september 2009.