Spurt og svarað

23. september 2007

Næturgjafir og svefnvandamál

Sæl og blessuð!

Ég hef verið að lesa nokkrar greinar hér á vefnum um hvenær á að hætta næturgjöfum. Eins og ég skil þetta þá á það bara að ráðast á barninu hvenær það vill hætta næturgjöfum. En ég las í bók eftir Örnu Skúladóttir, Draumland. Sýnt hefur verið fram á að næturdrykkja er sterkasti þáttur til að viðhalda því að barn vakni oft upp um nætur. Þessi tengsl milli næturdrykkju og næturvökunnar verður sýnilegri eftir því sem barnið eldist.

Á ég að venja barnið af næturdrykkju snemma til að það vakni ekki alltaf á nóttini fram eftir aldri?

Ég vildi líka forvitnast um drykkjutíma og svefntíma, hve langan tíma fyrir dagslúra og svefn maður á að gefa og hvernig hægt sé að venja þau á að sofna ekki við brjóstagjöf. Ein regla sem ég hef heyrt er að setja þau á öxlina áður en þau hætta að sjúga en það virðist ekki skipta máli því minn er t.d. alveg sofnaður en samt ennþá að sjúga á öxlinni.

Með bestu kveðju, Silja.


Sæl og blessuð Silja.

Þetta er alltaf viðkvæmt atriði varðandi svefn barna. Þau sofa að sjálfsögðu mun meira en fullorðnir og mest þegar þau eru yngst. Það er þó einstaklingsbundið hvað hver maður þarf að sofa eins og við vitum og það á líka við um börn. Það er mikilvægt fyrir þá fullorðnu að aðlagast styttri svefntíma við aukinn aldur barns. Hvernig svefninum er skipt á sólarhringinn mótast nokkuð af venjum en algengast er að mesti svefninn eigi sér stað að nóttu til. Næringarþörfin er nokkuð regluleg yfir sólarhringinn til að byrja með og það þýðir að börn verða að drekka að nóttu til. Hvenær sú þörf minnkar eða hverfur er einstaklingsbundið. Það er hægt að þvinga börn til að drekka á þeim tíma sem manni sjálfum hentar en allar mínar heimildir draga mjög í efa að það sé ráðlegt. Þær benda líka á að börn hætti alltaf næturgjöfum af sjálfu sér ef móðir er þolinmóð og sinnir þörfum barna sinna á eðlilegan hátt. Börn sem þvinguð eru til að breyta matartímum sínum eru líklegri til að sýna breytta hegðun (til hins verra), vanþrif og svefnvandamál. Hugsaðu hvernig þér liði ef kvöldmatnum væri skyndilega frestað um 3 tíma til frambúðar. Svarið við spurningunni er því: Nei, þú átt ekki að venja barnið af næturdrykkju heldur alltaf taka því með opnum örmum og af ástúð þegar það vaknar hvort sem það vill drekka eða ekki. Hversu löngu fyrir lúra á daginn á að gefa er breytilegt eftir aldri barns. Börn á fyrstu mánuðunum ljúka brjóstagjöf með því að fara að sofa en það gera eldri börn yfirleitt ekki. Ég skil þetta ekki alveg með öxlina hjá þér en ég vona að það sé komið fram sem þú ert að spyrja um.

Með kærri kveðju,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. september 2007.

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.