Champix til að hætta að reykja

21.01.2008

Sælar ljósmæður!

Það er rúmur mánuður síðan ég hætti að reykja með hjálp lyfsins Champix. Það er mælt með þriggja mánaða skammti og ég er búin með mánuð. Ég var að komast að því að ég er ólétt. Má ég halda áfram að taka lyfið? Það hefur hjálpað mér rosalega mikið í baráttunni við nikótínið.

Kær kveðja og með von um svör, Perla.


Sæl og blessuð!

Því miður þá er ekki nógu mikið vitað um áhrif lyfsins Champix á fóstur og meðgöngu og því er ekki ráðlegt að taka það inn á meðgöngu. Ég vona þó að þú getir haldið reykbindindið því það er mjög mikilvægt fyrir þig og ófædda barnið þitt. Þú getur lesið nánar um áhrif reykinga á meðgöngu í pistli hér á síðunni. Á vefsíðunni www.reyklaus.is er einnig að finna fræðsluefni og upplýsingar um stuðning til reykleysis o.fl.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. janúar 2008.