Næturgjafir og þyngdarkúrfa

08.12.2013
Sælar og takk fyrir frábæran vef!
Mig langar að spyrja út í næturgjafir. Ég á 7 mánaða gamlan strák sem er á brjósti og drekkur ennþá tvisvar á nóttunni. Hann drekkur vel þá, jafnvel lengstu og bestu gjafirnar.Mér finnst hann þurfa á þessum gjöfum að halda. Hann drekkur líka 4-5 sinnum yfir daginn og er farinn að borða 3 sinnum á dag. Hann er mjög duglegur og fljótur til, farinn að skríða út um allt og standa upp. Hann er mjög glaður og virðist líða vel og tekur 2 góða daglúra. Er það vitlaust hugsað hjá mér að hann þurfi bara á þessum næturgjöfum að halda? Þegar ég fór með hann í 6 mánaða skoðun þá var lögð áhersla á að ; draga úr næturgjöfum og eflaust verður ekki minna gert úr því þegar ég fer með hann í 8 mánaða skoðun. En ég hef reynt að láta hann drekka oftar yfir daginn og koma meiri mat ofan í hann en mér finnst virka best þegar hann fær að ráða ferðinni. Einu skiptin sem við höfum lent í vandræðum með brjóstagjöfina er þegar ég hef verið að reyna að þvinga hann í eitthvað annað mynstur (og þá oft eftir ungbarnaskoðun). Af hverju eru þær sem vinna við ungbarnaverndina ekki betur meðvitaðar um að þyngdarkúrfan er alls ekki dæmigerð fyrir þyngdaraukningu brjóstabarna? Minn þyngdist mjög vel til að byrja með en um 5 mánaða fór að hægjast á honum þrátt fyrir að hann drykki vel. Getur þetta ekki verið algjörlega eðlilegt fyrir barn sem er fljótt til að byrja að hreyfa sig? Ég á tvö eldri börn sem voru líka eingöngu á brjósti til 6 mánaða og gekk mjög vel með. Þau voru líka mjög fljót til og þau fylgdu nákvæmlega sömu kúrfu og litli brjóstakallinn minn er að gera núna.

Sæl og blessuð!
Það er mjög gott mál þegar vel gengur með brjóstagjöfina. Það er rétt metið hjá þér að barnið þarf næturgjafirnar. Og ef þær eru ekki að trufla svefn foreldra er um að gera að halda þeim inni. Það hljómar sem barnið sé að þroskast eðlilega og líði vel. Ég veit ekki hvað vakir fyrir starfsfólki ungbarnaverndar en það er margt frábært fólk þeirra á meða, eða hvort kannski er ennþá verið að nota gömul viðmið en það eru því miður dæmi um að haldið er að konum að hætta brjóstagjöf einmitt þegar börn eru á þessum aldri. Ég ráðlegg þér að halda þínu striki og halda brjóstagjöfinni áfram eins og þér hugnast best jafnframt því sem þú kennir á fast fæði.
Bestu óskir.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8.desember 2013.