Næturgjafir, hvenær má hætta þeim?

14.06.2005

Sæl!

Dóttir mín er 4ra mánaða, fædd 3700 gr. og er í dag 7400 gr.  Hún sofnar kl. 20.30 á kvöldin og drekkur svona milli kl 4 og 5 á nóttunni og vaknar svo um kl 7. Hvenær er raunhæft að taka af henni næturgjöfina?

Takk fyrir frábæran vef.

.........................................................................

Sæl og blessuð.

Það er raunhæft að taka af henni næturgjöfina milli 2ja og 3ja ára aldurs. Barn á fyrstu mánuðum ævi sinnar er á því skeiði sem maðurinn vex hraðast og mest í lífinu. Það er algerlega óraunhæft að ætlast til af nokkrum í svo miklum vexti að taka sér meira en örfárra klukkutíma hvíld. Meltingarfærin eru líka í rosa stuði. Þau eru búin að melta brjóstamjólkurgjöf að mestu leyti á 3-4 klst. Þá byrjar hungrið að læðast að barninu aftur. Eftir 2ja ára aldur hefur hægst verulega á vexti og þá fyrst er hægt að ætlast til af barni að það sofi allar nætur. Það eru þó alltaf mikil einstaklingsfrávik í þessum efnum sem öðrum. T.d sofa sum börn allar nætur frá 3ja vikna aldri en það er ekkert sem móðir ræður eða ákveður.

Með bestu óskum um aukna þolinmæði,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. júní 2005.