Spurt og svarað

13. ágúst 2006

Næturgjarfir hjá 9 mánaða

Komiði sælar og takk fyrir virkilega frábæran vef!!
Ég á tæplega 9 mánaða son. Hann er enn mjög mikið á brjósti og mig langar
að bera nokkra hluti undir ykkur.
Í fyrsta lagi velti ég fyrir mér næturgjöfum og tannhirðu. Sonur minn drekkur á nóttunni. Yfirleitt um miðnætti og svo nokkrum sinnum undir morgun. Næturgjafirnar trufla mig ekkert. Sá stutti sefur uppí hjá okkur eða í rúmi sem er alveg við hliðina á mér og ég vakna stundum alls ekki við að gefa honum. Tannlæknirinn minn ráðlagði mér um daginn að hætta næturgjöfum til að passa upp á tennurnar í llillanum. Hvað segið þið um það? Hafið þið séð skemmdar tennur af brjóstamjólk? Þarf strákurinn á nætursopanum að halda eða er þetta bara ávani sem ég ætti að losa hann við? Sá stutti tekur ekki snuð og því hef
ég velt fyrir mér hvort ég sé ef til vill "snuðið hans". Er það kannski óæskilegt?
Ég hef farið afskaplega rólega í matarmálin okkar. Hann byrjaði að smakka
annan mat en brjóstamjólk 6 mánaða en enn er brjóstamjólkin aðalfæða hans
(hann er að verða 9 mánaða). Ég gef honum mat tvisvar til þrisvar á dag (hádegi og kvöld, stundum líka síðdegis) en mjólkina sína fær hann alltaf líka auk þess sem hann fær brjóstið oft á dag þess á milli. Er ég nokkuð að gera honum grikk með því að hafa hann svona mikið á brjósti enn? Hvenær ætti ég að minnka brjóstagjöfina? Er óæskilegt að hann drekki oft á dag eitthvað fram eftir aldri?

Kv. Vala.Sæl og blessuð Vala.
Þú getur alveg verið róleg með þínar næturgjafir. Þetta hefur verið rannsakað með tennurnar og það kom í ljós að geirvarta fer miklu innar í munninn en tútta. Tennurnar liggja því ekki í mjólkurbaði í og eftir gjöfina. Það gera hins vegar tennur eftir pelagjafir. Það þarf því að passa tennur barna sérlega vel sem eru að fá pela að nóttu til.
Já, barnið þitt þarf á nætursopanum að halda annars myndi hann ekki vakna og þú mátt vera stolt af því að vera snuðið hans en ekki einhver verksmiðjuframleidd kúla sem ekkert kemur úr.
Nei, þú ert ekki að gera honum grikk með því að vera mikið með hann á brjósti heldur ertu að gera honum mjög gott.
Mér heyrist þú geta haldið áfram að minnka brjóstagjöfina á ykkar hraða og það er bara fínt að gera þetta svona rólega.
Og við síðustu spurningunni er svarið : Nei, það er ekki óæskilegt að hann drekki oft á dag fram eftir aldri. Það er mjög gott bæði fyrir þig og hann.
Með bestu brjóstagjafakveðjum.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
13.08.2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.