Nætursviti og kvíði

03.08.2009

Ég er með 11 daga gamalt barn og hef svitnað alveg rosalega mikið á næturnar síðan hún var svona 2 daga gömul. Er þetta eðlilegt? Tengt hormónum? Ég hef líka fundið fyrir smá kvíðatilfinningu á daginn sem kemur og fer. Veit ekki hvort það gæti tengst þessu líka og þá hormónum einnig?

Bestu kveðjur.

 


Sæl og blessuð!

Það er ofur eðlilegt að fá væn svitaköst fyrstu vikurnar eftir fæðingu og já, það tengist hormónum. Yfirleitt er þetta mest áberandi á fyrstu dögunum en svo dregur smá saman úr þessu. Kvíðatilfinning og óöryggistilfinning getur líka verið eðlileg en það er mjög erfitt að meta hvað sé eðlilegt og hvað er of mikið. Það er jú hægt að fá fæðingarþunglyndi sem er þá óeðlilega mikil kvíðatilfinning og vanmáttarkennd. Það er auðvelt mál að tala við starfsfólk ungbarnaeftirlits og fá metna andlega líðan eftir fæðingu. Ef kvíðinn er hamlandi er betra að gera það fyrr en seinna.

Með bestu kveðjum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
3. ágúst 2009.