Spurt og svarað

01. desember 2005

Neitar brjóstinu, vantar aðstoð

Sælar veriði!

Þannig er mál með vexti að ég á 6 og ½ mánaða gamlan son sem ég er með á brjósti og hefur brjóstagjöfin gengið mjög vel hingað til. Hann er meðalbarn að þyngd og lengd en hann hefur fengið að borða graut, ávaxtamauk o.fl., u.þ.b. tvisvar til þrisvar á dag núna, byrjaði að gefa honum þegar hann var 4 og ½ mánaða.  Nú er ég farin að vinna hluta úr degi og pabbi hans er með hann fyrri partinn og gefur honum þá stoðmjólk úr pela því að ég gafst upp á að mjólka mig, gat aldrei mjólkað nóg fyrir hann. Hann er núna að drekka úr túttu nr. 2 sem er sögð vera fyrir 1 mánaða barn, reyndar með 2 götum á.  Ég hef líka gert þau mistök að gefa honum stoðmjólk eftir brjóstagjöfina á kvöldin til að vonast eftir því að hann sofi aðeins betur yfir nóttina.  Hann sefur nefnilega ekkert betur af matnum og mjólkinni. Það virkaði reyndar fyrst en svo vaknar hann jafn oft og áður. Jæja, svo ég komi mér að málinu núna, þá er vandamálið það að núna er hann alveg farinn að neita mér, og vill alls ekki drekka úr brjóstinu, spennir sig upp, og grætur og bara vill alls ekki fá brjóst. Nú hangi ég sem sagt í þessum næturgjöfum og gríp þær eins og gull og gef honum sem oftast á nóttunni (þá virðist hann vilja brjóstið)  mér er nefnilega mjög illt í brjóstunum og mig langar alls ekki að hætta með hann strax. Vil hvorki missa niður framleiðsluna né verða til þess að þessi litla vinna eyðileggi þetta strax.  Ég hef reynt að gefa honum um leið og ég kem heim á daginn, þannig að ég var að gefa honum svona þrisvar yfir daginn og svo
mjög oft á nóttunni, en núna er þetta sem sagt orðið svona að hann fæst ekki til að taka brjóstið.

Er eitthvað sem við getum gert til að reyna að laga þetta og hjálpa honum yfir þetta? Á maðurinn minn að gefa honum frekar mjólkina úr svona stútkönnu sem þarf að sjúga úr eða fara aftur í litla pelann nr. 1 eða er eitthvað sem við getum gert?  Og hvað get ég gert fyrir mig og hann til að laga þetta? Vandamálið er líka það að ég get ekki mjólkað mig og losað þannig því að ég er fastmjólka og það kemur ekkert losunarviðbragð nema á meðan hann er að drekka úr hinu brjóstinu þannig að það gengur ekki, og ég er orðin svo hrædd um að verða veik og allt stíflist og allt! Jæja, þetta er orðið svo langt hjá mér,vonandi getið þið hjálpað mér og ég veit að þið fáið margar fyrirspurnir, en ef þið gætuð mögulega svarað mér hratt þá gæti ég kannski gert eitthvað
áður en ég klúðra þessu alveg.

Vonast til að heyra í ykkur.

Kær kveðja, ein með svolítið miklar áhyggjur og vanlíðan.

.......................................................

Sæl og blessuð.

Það tókst því miður ekki að svara fyrirspurninni þinni hratt eins og þú óskaðir eftir en ég vona að ég geti eitthvað hjálpað þótt seint sé.
Þú ert nú greinilega með þetta nokkuð á hreinu bæði hvað þú gerðir rangt og hvað hugsanlega mætti gera til að laga stöðuna. Það er svo erfitt að bakka út úr svona stöðum sem maður hefur komið sér í því börnin upplifa þetta á gjörólíkum forsendum. Þú ert búin að fatta að þú byrjaðir allt of snemma að gefa aukafæði en það þýðir ekkert að velta sér upp úr því núna. Hugsaðu þetta þannig að næringarlega séð þarf hann ekkert nema mjólkina þína. Þannig að það sem hann fær aukalega ætti að gerast þegar þú ert ekki heima og getur ekki gefið honum. Og já það er rétt hjá þér að það er betra að gefa með túttu með litlu gati.
Þegar þú ert heima er brjóstið það sem í boði er nema hann sæki í að narta í eitthvert fast fæði. Til að fá hann til að taka brjóstið gætirðu reynt hjálparbrjóst með grennstu slöngunni. Þá fær hann smávegis stoðmjólk í flöskuna og líklegt er að ef hann byrjar og fær flæðið strax eins og í pelanum sé hann tilbúnari til að halda áfram.
Þér er líka alveg óhætt að prófa áfram að mjólka þig. Ég trúi ekki öðru en að það komi með tímanum. Það er sennilega heppilegast fyrir þig að reyna handmjólkun. Þú þarft að reyna 5-6 sinnum til að einhver reynsla komi á það svo það fari að skila árangri.

Með einlægri ósk um að þú gefist ekki upp,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.