Spurt og svarað

12. apríl 2006

Nennir ekki að drekka af brjóstinu

Sælar og takk fyrir áhugaverðan vef!

Ég er með eina rúmlega 2 mánaða, sem verður alltaf lélegri og lélegri að taka brjóstið. Málið er að hún var ekki lögð á brjóstið við fæðingu og þar sem hún var frekar lítil þurftum við að vera nokkra daga upp á spítala og þar var hún sett á 3 tíma gjafir og var lítið sem ekkert sett á brjóst þar, ég er með flatar geirvörtur og því var meira mál að setja hana á brjóstið en þær hjálpuðu lítið við að koma henni á brjóst. Þegar hún var vikugömul var hún aðeins farin að taka brjóstið en drakk aldrei nóg, og gerir ekki enn. Hún hefur aukið það sem hún drekkur en þarf alltaf meira og meira, þannig að hún drekkur bara um u.þ.b. helminginn af brjóstinu og svo þarf ég að mjólka mig og gefa henni restina. Höfum m.a.s. passað að gefa henni með fingurgjöf í stað pela svo að það verði ekki of auðvelt að drekka miðað við brjóstið. Málið er að núna er hún nánast alveg farin að„stræka“ á að taka brjóstið, nema þegar hún er mjög þreytt, þá drekkur hún smá en ég þarf samt alltaf að mjólka mig og gefa henni restina. Síðustu gjafir hefur hún byrjað að orga úr sér lungun bara við það að vera lögð á brjóstið, samt ekkert að trufla hana í maganum, hef reynt að láta hana ropa til þess að róa hana, en það virðist ekki vera loft. Vandamálið virðist heldur ekki vera mjólkin sjálf eða lystarleysi hún drekkur strax þegar við bjóðum henni fingurgjöf og þá er hún alveg róleg. Hvað er hægt að gera til þess að auka áhuga hennar á brjóstinu? Afsakið langlokuna, en ég vona að þið lumið á einhverjum góðum ráðum því okkur langar svo að hafa hana áfram á brjósti.

Kveðja, stressuð mamma.


Sæl og blessuð stressaða mamma.

Mér finnst ekki skrýtið að þú sért orðin stressuð og nú er barnið byrjað að bregðast við líka, eðlilega. Ég vona að þér finnist það góð ráð sem ég nefni en þau eru töluvert langt frá því sem búið er að innræta ykkur. Það er um töluvert annað ástand að ræða á fyrstu vikunni en við 8 vikna gamalt barn. 8 vikna gamalt barn er nógu stórt og sterkt til að sjá um sína næringu sjálft. Ef það nær ekki næringunni úr brjóstunum þá er hún ekki mjólkuð út fyrir það. Ef það nær lítilli næringu í eitt skipti þá tekur það bara fljótt brjóst aftur og tekur meira. Það er ekki mælt í ml. eða gr. hvað 8 vikna barn drekkur í hvert sinn og magn þess sem barnið á að drekka fer ekki sí stækkandi. Það gerir það að vísu ef barn er á þurrmjólk en ekki ef það fær brjóstamjólk. Það kemur hvergi fram í bréfinu að barnið fái þurrmjólk svo ég geri ráð fyrir að svo sé ekki.

Það sem mér finnst koma til greina er að þið séuð sífellt að reyna að fá barnið til að taka stærri skammta en það þarf og getur torgað. Smám saman fer barnið að láta illa við þessu og hafna brjóstinu. Upplifunin við brjóstið hættir að verða ánægjuleg og það fer að gráta ef það sér brjóstið og venst þannig frá því. Þú getur lagað þetta á auðveldan hátt en það getur samt tekið smá tíma.

  • Hættu að mjólka þig.
  • Leggðu áherslu á brjóstagjöfina.
  • Reyndu að fá barnið til að grípa. Ef það tekst gerir þú ekkert nema slaka á.
  • Ekki taka tímann. Hann skiptir engu máli lengur.
  • Eftir gjöfina ferðu að gera eitthvað annað, hvíla þig o.s.frv.
  • Næst þegar barnið er svangt fer það á brjóst og drekkur eins lengi og það vill.

Þetta getur verið svolítið erfitt nokkur fyrstu skiptin en ætti fljótt að lagast. Ég veit að þetta hljómar einkennilega en nú er kominn tími til að þú treystir líkama þínum fyrir að næra barnið þitt og farir að snúa þér að öðrum áhugamálum.

Með bestu óskum um nýja byrjun,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. apríl 2006.

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.