Nokkrar spurningar um brjóstabólgu

22.11.2006

Hæ, hæ!

Ég er mikið að velta fyrir mér tveim atriðum.

Í fyrsta lagi hvenær er manni óhætt að nota venjulegan brjóstahaldara (sem sagt ekki gjafahaldara), þegar maður er með barn á brjósti? Stelpan mín er rúmlega 7 mánaða og drekkur 4 gjafir á sólarhring.

Hitt sem ég var að velta fyrir mér er hvort mér sé óhætt að fara í gufubað sem staðsett úti og má ég fara í útisund þegar það er frost úti? Kannski eru þetta heimskulegar spurningar, en ég spyr því að það er alltaf verið að brýna fyrir manni að láta ekki sér ekki verða kalt á brjóstunum (og passa að þau verði ekki fyrir snöggum hitabreytingum). Líka að passa að það þrengi hvergi að, svo að maður fái ekki brjóstabólgu. Best að taka það fram að ég hef aldrei fengið brjóstabólgu „7-9-13“.

Mig langar líka að vita hvort það fari ekki svolítið eftir konum hvort þær fái brjóstabólgu eða ekki? Ég meina, fá ekki sumar konur brjóstabólgu - jafnvel nokkru sinnum nánast upp úr þurru, á meðan aðrar konur eru svo heppnar að sleppa? Er þetta genatengt?

Vona svo innlega að þessum spurningum mínum verði svarað.

Kveðja.


Sæl og blessuð.

Ég mæli með því að konur séu í gjafahaldara út brjóstagjöfina. Það er ekki víst að allar konur þurfi þess. Þetta er meira byggt á vinnu minni en í henni fæ ég konur með brjóstastíflur eftir slæma brjóstahaldara allan brjóstagjafatímann. 

Já, þú mátt fara í útigufubað og útisundlaug ef þú treystir þér til. Konur eru misnæmar fyrir kulda og þekkja það yfirleitt best sjálfar hvað þær geta. Þær sem eru vanar sundi í kuldum án þess að fá kvef eða aðrar pestir eru yfirleitt vel settar.  Jú, það er rétt að sumar konur fá oftar brjóstastíflur eða bólgur en aðrar en ég er ekki viss um að það sé genatengt. Vona að þetta svari þínum spurningum. 

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. nóvember 2006.