Spurt og svarað

08. júlí 2012

Notar mig sem duddu

Hæ og hó!
Ég er með eina 7 og hálfs mánaða sem drekkur á um þriggja tíma fresti og er farin að borða fjórum sinnum yfir daginn. Ég er dugleg að bjóða henni brjóstið yfir daginn. Stundum vill hún þó brjóstið fram yfir grautinn og þá var mér ráðlagt að gefa henni ekki brjóstið fyrir matmálstímann. Fá hana frekar til að borða og æfa sig að tyggja. Hún liggur þá á brjóstinu þegar hún tekur dúrana sína eða fyrir svefninn á kvöldin. Þannig að hún notar mig pínu til að róa sig niður fyrir svefn. Ég er sem sagt duddan hennar. Hún notar ekki að öðru leyti snuð. Mig langar svo að fara draga úr brjóstagjöfinni en halda eftir einni til tveimur gjöfum þar til hún verður eins árs. Ætli sé ekki best að halda eftir kvöldgjöfinni? Það er lengsta gjöf dagsins og sú sem hún nýtur hvað mest. Hvað með dúrana yfir daginn? Er slæmt að hún noti mig sem dudduna sína?


Sæl og blessuð!
Þetta hljómar ósköp eðlileg hegðun hjá henni. En ef þú vilt fara að draga úr brjóstagjöf þá þarftu að taka út gjafir. Þú tekur bara eina gjöf út og gefur annað í staðinn og býður bara vatn í  glasi á eftir. Þetta endurtekurðu í 4-7 daga þ.e.a.s. það er alltaf sama gjöfin sem er sleppt. Ef þér finnst hún svo vera sátt og brjóstin í lagi þá geturðu tekið út aðra gjöf á öðrum hluta sólarhringsins og látið það gilda í 4-7 daga. Þannig heldurðu áfram þar til eftir standa 1-2 gjafir. Jú, það er rétt hjá þér að það er gott að halda lengst í uppáhaldsgjafirnar. Og nei, hún er ekki að nota þig sem duddu. Hún er að leitast við að fá þá mestu vellíðunartilfinningu sem hún þekkir hjá bestu mömmu í heimi. Þar finnur hún líka mesta öryggið.

Vona að þetta gangi vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. júlí 2012
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.