Spurt og svarað

22. júlí 2007

Óeðlilegar geirvörtur?

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef!

Ég er búin að vera að lesa mér til á vefnum ykkar um innfallnar geirvörtur og svokallaða geirvörtuformara. Mig langaði samt að spyrja frekar útí þetta. Miðað við geirvörtuprófið sem þið lýstuð í einu svarinu held ég að ég sé ekki með innfallnar geirvörtur og eins og þið takið líka fram þá hefur mjólkurframleiðslan lítið með vörturnar að gera og fer fram inni í brjóstinu sjálfu. Brjóstin hafa líka stækkað mikið á meðgöngunni og vörturnar verið mjög bólgnar og þrútnar auk þess sem að nokkrum sinnum hefur lekið úr brjóstunum, þannig að ég held að sennilega sé mjólkurframleiðslan í lagi. En hins vegar hef ég tekið eftir því alveg síðan á unglingsárum að ég er ekki með eins geirvörtur og flestar konur í kringum mig. Þ.e.a.s. þær verða ekki stinnar í kulda eða við ertingu, en dragast samt stundum saman en þá stendur vartan ekki út samt. Ég býst við að það sé hægt að lýsa þessu þannig að þær eru alltaf mjúkar og einhvern veginn ekkert hægt að sjá hvar vartan endar og baugurinn byrjar. Spurningin er semsagt sú hvort sumar konur séu bara með svona geirvörtur eins og ég er að reyna að lýsa og hvort það heiti eitthvað? Og svo náttúrulega aðalatriðið; hvort þið haldið að það muni hafa einhver áhrif á brjóstagjöfina og hvort ég ætti kannski að drífa mig að byrja að nota geirvörtuformara þó að ég sé ekki endilega með innfallna vörtu? Er komin 30 vikur.

Með fyrirfram þökk, RJ.Sælar!

Ég hef kynnst svona geirvörtum í mínu starfi eins og þú lýsir, þannig að sumar konur eru bara með svona geirvörtur. Og lögun geirvartanna virðist ekki hafa áhrif á brjóstagjöfina nema bara ef þær eru mjög innfallnar. Það er allskonar lögun til á geirvörtum og börnin taka geirvörtuna oftast bara vel þrátt fyrir það. Ég ráðlegg þér að hafa ekki miklar áhyggjur - þú getur líka sýnt ljósmóðurinni þinni geirvörturnar í mæðraskoðuninni og rætt þetta við hana og einnig er hægt að fara til brjóstagjafaráðgjafa í skoðun.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. júlí 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.