Of hratt flæði?

09.11.2013
Ágæti viðtakandi!
 Ég er með lítinn dreng 8 daga. Fyrstu 4-5 dagana gekk vel, að vísu drakk hann lítið fyrsta sólarhringinn sökum tunguhafts sem var svo klippt á. Svo byrjuðu vandræði. Hver brjóstagjöf tekur núna 2-3 tíma og eftir að hafa vakað nánast í 48 tíma við að gefa brjóst eru taugar móðurinnar að gefa sig. Vandræðin lýsa sér þannig að ég set barnið á brjóst, heyri hann súpa hveljur og svo byrjar hann að gráta. Svona gengur þetta í kannski 2 tíma. Þegar hann loksins byrjar að sjúga drekkur hann vel og lengi. Hann sýgur puttann á mér vel. Ég held því að ég sé búin að útiloka gripvandamál. Ég ákvað að prófa að pumpa mig eina gjöf og það tók innan við 5 mín að mjólka 100 ml. Þannig að ekki vantar mjólkina. Þegar ég átti eldri strákinn minn lenti ég í því eftir 5 eða 6 vikur að hann hætti að vilja brjóstið. Eftir heimsókn til brjóstaráðgjafa á Landspítalanum hafði ég lært að ég væri með of hratt flæði og í framhaldinu náði ég ágætis tökum á klemmuaðferðinni. Hún er ekki að virka núna og ég veit ekkert hvað á að gera. Ég væri rosalega þakklát ef þið gætuð aðstoðað. Með kveðju Ein ráðþrota.

Sæl og blessuð!
Ég vona að það sé farið að ganga betur en ástandið sem þú lýsir kemur vel heim við of hratt flæði. Því ráðlegg ég þér að rifja upp klemmuaðferðina. Það eru til mismunandi afbrigði af henni þannig að þú getur þurft að beita pínulítið annarri aðferð við þetta barn en það síðasta. Prófaðu þig endilega áfram eða fáðu hjálp við það. Það er líka svolítið einstaklingsbundið hvernig börn bregðast við flæðinu. Þetta barn gæti þurft meiri aðstoð en það fyrra. Ég vil líka minna þig á að passa vel upp á að lenda ekki í offramleiðslu mjólkur. Því þegar þau 2 vandamál lenda saman er enn erfiðara við að eiga. Það þýðir að þú þarft að stoppa allan leka, gefa bara 1 brjóst í gjöf og ekki pumpa neitt.
Með bestu ósk um gott gengi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. nóvember 2013