Spurt og svarað

05. maí 2009

Of hratt losunarviðbragð

Hæ og takk fyrir frábæran vef!

Ég er með 7 vikna strák sem hefur eingöngu verið á brjósti. Hann er mitt annað barn en við fyrra barn var hratt mjólkurflæði ekki vandamál. Strákurinn hefur verið að drekka á ca. 3 klst. fresti allan sólarhringinn. Til að byrja með var ég með of mikla mjólk en svo komst jafnvægi á það. Tvisvar hef ég misst mjólkina í tengslum við veikindi en örvað framleiðsluna í gang aftur. Fyrir viku síðan fór strákurinn að mótmæla hversu hratt mjólkin kemur úr brjóstunum. Hann kyngir hratt, svo hraðar og hraðar þar til að mjólk fer að leka út um munnvikið. Þá sleppir hann brjóstinu og það sprautast í allar áttir. Stundum svelgdist honum á en hann jafnar sig fljótt. Hann hefur prumpað mikið því hann virðist gleypa loft þegar hann drekkur og tvisvar hef ég séð froðukenndar hægðir. Þegar hann var 6 vikna fór hann fór að gráta þegar mjólkurflæðið varð of mikið og neitaði að fara aftur á brjóstið. Hann drakk þá lítið og mér fannst þetta leiðinlegt og streituvekjandi. Svo las ég mig til hérna á síðunni um að klemma saman fingrum við geirvörtuna og þetta hefur hjálpað mikið. Ég hef gert það í hverri gjöf í 4 daga og virðist hann vera farinn að treysta brjóstunum aftur og slaka á. Mér finnst ég hins vegar þurfa að klemma brjóstið saman næstum alla gjöfina og finnst það ekki afslappandi. Ég hef reynt að gefa honum útafliggjandi en það virðist ekki fara vel í hann. Ég hef nokkrar spurningar í tengslum við þetta. Er líklegt að ég þurfi að halda þessu áfram allan tímann sem hann er á brjósti ? Er til leið til að hægja varanlega á mjólkurflæðinu? Er besta staðan að halda á barninu í öfugri kjöltustöðu og nota hægri hendi til að klemma saman geirvörtuna þegar gefið er úr hægra brjósti og öfugt?Hafið þið einhver fleiri ráð?

Kær kveðja.

 


Sæl og blessuð!

Það er algengt að vandamál í tengslum við of hratt flæði séu mest við 6-8 vikna aldurinn. Þangað til virðast börn finna leið til að bjarga sé eins og með smellum, láta leka fram hjá og grípa og sleppa vörtunni. Þegar þessum ákveðna aldri er náð fara þau gjarnan að mótmæla á einhvern hátt.

Þau ráð sem þú hefur verið að nota eru þau helstu sem tiltæk eru en það eru svo sem til ýmsar útfærslur á þeim sem þú getur reynt. Klemman virkar vel en það á ekki að þurfa að nota hana alla gjöfina. Stellingin sem þú talar um er rétt. Hraði flæðisins minnkar svo á náttúrulegan hátt þannig að ef þú þarft að halda henni áfram þá er líklegt að eitthvað sé að gripi barnsins. Þá þarf að laga það. Þú þarft líka að gæta þess að losa klemmutakið hægt. Hitt ráðið sem snýr að notkun þyngdaraflsins má nota á mismunandi vegu með breyttum stellingum bæði þínum og barnsins. Reyndu að hugsa þetta þannig að helst á mjólkin að renna upp til barnsins.

Gangi þér sem best.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. maí 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.