Of langt milli gjafa?

08.12.2013
Sælar og takk fyrir frábæran vef!
Ég er með einn 10 daga gamlan strák. Hann er rosalega vær og góður. Á daginn drekkur hann á svona 2-4 tíma fresti og er þá mjög duglegur að drekka. Ljósmóðirin mín sagði mér að vera ekki að vekja hann til þess að láta hann drekka en undan farnar tvær nætur þá hefur hann verið að sofa í 7 tíma og í morgun þá ýtti ég aðeins við honum því mér fannst nóg komið. Er þetta alveg í lagi? Hann er auðvitað svangur þegar hann vaknar eftir svona dúr en hann hefur samt aldrei orgað úr hungri eða neitt slíkt.

Sæl og blessuð!
Til hamingju með barnið. Gott að heyra að vel gengur. Það er alveg rétt hjá ljósmóðurinni þinni að segja þér að leyfa honum að sofa. Sum börn taka svona langa dúra og bæta sér upp næringuna á öðrum tímum og það er bara í góðu lagi. Þér er alveg óhætt að treysta því að barnið myndi vakna fyrr ef hungur sækti að. Oftast eru svona langir dúrar (6-9 klst.) tímabundnir í nokkra daga eða vikur en einstaka börn gera þetta að venju sinni. Þú sérð bara til og nýtur þess meðan það varir.
Bestu óskir.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8.desember 2013.