Spurt og svarað

21. janúar 2008

Of langur tími á milli gjafa?

Ég á 8 vikna gamla stelpu sem ég er með á brjósti, hún hefur yfirleitt verið að drekka á u.þ.b. 2-3 tíma fresti yfir daginn og svo stundum örar á kvöldin. Ég er nýfarin að setja hana út í vagn að sofa á daginn, henni finnst það alveg æðislegt og sefur best úti í vagni. Hún sefur í 4 tíma og í dag þurfti ég eiginlega að vekja hana þegar hún var búin að sofa í rúma 5 tíma. Mig langar því að vita hvort að þetta er of langur tími upp á brjóstagjöfina að gera. Getur mjólkin minnkað við það að það líði svona langur tími á milli gjafa? Ef svo er hvað á ég þá að gera?

Bestu kveðjur, mamma litla.


Sælar!

Þegar við erum að velta fyrir okkur tímalengd á milli gjafa þá er talað um að 6 klst séu hámarkstími á milli gjafa - ef það fer að líða svona langur tími á milli - þá getur mjólkin minnkað. Við erum alltaf að tala um lögmálið „framboð - eftirspurn“ þ.e. því oftar sem barnið sýgur því meiri mjólk framleiðist - í flestum tilfellum. Þar sem að stúlkan þín er bara 8 vikna - þá held ég að það sé gott að það líði ekki meira en 4 tímar á milli gjafa yfir daginn og oftast líður lengri tími á milli gjafa á nóttunni, án þess að það hafi truflandi áhrif á brjóstagjöfina.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. janúar 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.