Of langur tími á milli gjafa?

21.01.2008

Ég á 8 vikna gamla stelpu sem ég er með á brjósti, hún hefur yfirleitt verið að drekka á u.þ.b. 2-3 tíma fresti yfir daginn og svo stundum örar á kvöldin. Ég er nýfarin að setja hana út í vagn að sofa á daginn, henni finnst það alveg æðislegt og sefur best úti í vagni. Hún sefur í 4 tíma og í dag þurfti ég eiginlega að vekja hana þegar hún var búin að sofa í rúma 5 tíma. Mig langar því að vita hvort að þetta er of langur tími upp á brjóstagjöfina að gera. Getur mjólkin minnkað við það að það líði svona langur tími á milli gjafa? Ef svo er hvað á ég þá að gera?

Bestu kveðjur, mamma litla.


Sælar!

Þegar við erum að velta fyrir okkur tímalengd á milli gjafa þá er talað um að 6 klst séu hámarkstími á milli gjafa - ef það fer að líða svona langur tími á milli - þá getur mjólkin minnkað. Við erum alltaf að tala um lögmálið „framboð - eftirspurn“ þ.e. því oftar sem barnið sýgur því meiri mjólk framleiðist - í flestum tilfellum. Þar sem að stúlkan þín er bara 8 vikna - þá held ég að það sé gott að það líði ekki meira en 4 tímar á milli gjafa yfir daginn og oftast líður lengri tími á milli gjafa á nóttunni, án þess að það hafi truflandi áhrif á brjóstagjöfina.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. janúar 2008.