Spurt og svarað

29. janúar 2011

Of mikil formjólk?

Góðan daginn og takk fyrir góðan vef!
 Mig langar að spyrja varðandi brjóstagjöf. Ég á 7 vikna dreng sem kúkar oftar en ekki grænu, a.m.k. síðustu 2 vikur og bleyjurnar hafa verið óteljandi margar. Ég hef lesið að of mikil formjólk geti verið valdurinn, en þá er yfirleitt orðið kveisa aftan við. Drengurinn minn er vær og virðist þyngjast vel.Hann sefur alveg þokkalega vel og er glaður. Því ekki hægt að tengja kveisu við hann. Getur verið að hann sé samt að fá of mikla formjólk og of lítið af feitri mjólk? Síðustu 2-3 daga hef ég verið að prufa að láta hann drekka lengur í einu og sama brjóstið í einhvern tíma en enn er lítill bati nema kúkableyjurnar eru færri. Geta grænar hægðir tengst mjólkurofnæmi/óþoli? Með eldra barn var mér ráðlagt að gefa graut um 5 mánaða því barnið var ekki lengur að þyngjast. Getur verið að ég sé bara ekki með nógu feita mjólk? Getur maður fitað mjólkina með eigin mataræði?
Kveðja.

 
Sæl og blessuð!
Formjólkurkveisa lýsir sér yfirleitt með mjög stuttum gjöfum, gjarnan með örum skiptingum milli brjósta og svo geta hægðir orðið grænar, froðukenndar og með miklu slími. Þessu fylgir svo mikil óværð eða vansæld barnsins og léleg þyngdaraukning. Þar sem þú talar aðeins um grænar hægðir þá er það nokkuð sem getur verið alveg eðlilegt. Það tengist gjarnan mataræði sjálfrar móðurinnar og þarf ekki að hafa nein áhrif á barnið. Þegar þú segir barnið þyngjast vel og vera vært og gott þá eru það að sjálfsögðu aðalatriðin en ekki liturinn á hægðunum. Það að gefa brjóstið lengur er yfirleitt jákvætt. En að gefa sama brjóstið í einhvern tíma er ekki jákvætt, allavega ef þú meinar að þú gefir sama brjóstið aftur og aftur. Það er aðferð sem maður notar til að minnka mjólkurframleiðslu og á ekki að nota nema í þeim tilfellum. Það er afar ólíklegt að þú sért ekki með nógu feita mjólk því barnið þyngist eðlilega. Og nei, það er ekki auðvelt að fita mjólkina með eigin mataræði.
Vona að þér gangi svona vel áfram.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. janúar 2011.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.