Spurt og svarað

25. apríl 2014

Of mikil mjólk

Hæhæ!
Ég var að spá. Nú mjólka ég svakalega mikið og á nóttinni þá sefur gaurinn lengur en á daginn þannig að stundum þegar ég vakna þá eru bæði brjóstin stútfull en ég gef honum bara annað. Hvað á ég að gera við hitt brjóstið. Á ég að tæma það sjálf eða á ég að láta það bíða þangað til hann vill drekka aftur seinna? Þá er það orðið grjóthart.Mér gengur mjög illa að fá jafnvægi á brjóstagjöfina er alltaf að lenda í stútfullum grjóthörðum brjóstum. Drengurinn er orðinn 2 mánaða.

 


Sæl og blessuð!
Það getur tekið svolítinn tíma að ná góðu jafnvægi á aðlögun brjóstanna.Það þarf að finna kerfi sem hentar viðkomandi barni og er líka þægilegt fyrir móður. Ég á þó von á að þú sért alveg að ná þeim tíma sem líkaminn lagar þetta. Það sem helst er hægt að ráðleggja þér er að gefa alltaf bara eitt brjóst í einu. Ef barnið er óánægt 10-20 mín. eftir gjöf fær það aftur sama brjóst. Ef hitt brjóstið er mjög þanið er betra að láta það vera. Ekki mjólka úr því. Það ætti að jafna sig á nokkrum dögum. Ef þetta ekki dugar geturðu gefið sama brjóstið 2 gjafir í röð og látið hitt bíða. Síðan kemur að seinna brjóstinu í 2 gjafir og þannig áfram til skiptis í 1-2 sólarhringa. Þetta dregur úr mjólkurframleiðslu. Samt er betra að hafa það í huga að mikið þan á brjóstum á þessum tíma gefur ekki tilefni til að ætla að mikil framleiðsla sé til staðar heldur frekar að jafnvægi mjólkurframleiðslu sé ekki nægilega góð eins og þú reyndar talar um.


Með bestu kveðjum,
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. apríl 2014.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.