Spurt og svarað

24. maí 2006

Of mikil mjólk

 

Kæru ljósmæður og brjóstagjafaráðgjafar!

Ég við byrja á að þakka fyrir stórkostlegan vef.  Ég hef leitað mjög mikið hingað inn á vefinn alla meðgönguna og fengið góð svör við þeim spurningum sem ég hef verið að velta fyrir mér.
Ég á 2 vikna gamla stúlku sem gengur mjög vel með.  Ég er með hana á brjósti og hefur mjólkin verið að koma hægt og rólega síðustu vikuna.  Var talsvert lengi að komast af stað miðað við mína fyrri reynslu (á eitt barn fyrir).  Núna síðustu dagana hefur hinsvegar mjólkin aukist svo til muna að ég er með stöðuga verki í báðum brjóstum og þau eru mjög hörð.  Stúlkan mín nær alls ekki að tæma úr öðru brjóstinu og mér finnst muna litlu á brjóstinu eftir að hún hefur drukkið úr því.  Hún hefur líka verið aðeins óværari þessa síðustu daga (þó róleg sé) og ég hef því áhyggjur af því að hún sé að fá of mikla formjólk og ekki næga fitumikla mjólk.  Hægðirnar eru þó gular.  Hún hefur líka oft ekki undan að drekka og svelgist á.

Á ég að bíða og sjá til hvort það komist jafnvægi á þetta eða á ég að mjólka mig áður en ég gef henni til að minnka þessa formjólk sem hún fær?

Með von um góð svör, mjólkurmamman.


 

Sæl og blessuð mjólkurmamma!

Ég get rétt ímyndað mér að hjá þér snúist allt um mjólk þessa dagana. En þú hefur farið heldur geyst í örvunina og ert að framleiða of mikla mjólk miðað við lýsinguna. Fyrir því eru aðallega 2 orsakir. Í fyrsta lagi of mikil örvun t.d. of margar gjafir og/eða of oft skipt um brjóst. Eða í öðru lagi of mikið tekið úr brjóstunum. Það gera börnin yfirleitt ekki heldur er annað hvort mjólkað aukalega úr brjóstunum eða að það lekur úr þeim ótæpilega.

Það sem þú getur gert er í raun einfalt. Gefðu eins fáar gjafir og þú kemst af með og alltaf bara eitt brjóst í gjöf. Ef þú þolir við getur verið sniðugt að gefa sama brjóstið 2 gjafir í röð og svo hitt 2 gjafir í röð o.s.frv. í 1-2 daga. Síðan er mikilvægt að þú mjólkir ekkert brjóstin hvorki á undan eða eftir gjöf og stoppir allan þann leka sem þér er unnt. Þetta verður svo sem ekkert þægilegt í 2-3 daga en það er mikilvægt að snúa þróuninni við áður en þú lendir í alvarlegri vandræðum. Það getur hjálpað þér að liggja svolítið fyrir og þá sem mest á bakinu. Kaldur bakstur á brjóstið sem þú varst að gefa, eftir gjöf getur líka gert gæfumuninn. Hafðu hann vel kaldan og láttu hann liggja í svona 10 mín.

Gangi þér vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.