Spurt og svarað

11. maí 2005

Of stutt á milli gjafa?

Hæ!

Er með eina tveggja vikna stelpu sem þyngist vel og er komin yfir fæðingarþyngd sína. Er sem sé að fá fína mjólk enda er hún stöðugt á brjósti. Hvað er eðlilegt að líði langt á milli gjafa? Eru það 2-3 tímar því hjá mér er það svona 1 tími og stundum minna og u.þ.b. 15-20 mínútur í senn. Hún sofnar alltaf við gjöf og ef ég ætla mér að leggja hana í vögguna eða bara upp í rúm hjá okkur vaknar hún eftir svona 10 mínútur á daginn. Hún vælir og vill fá sér meira og sofnar svo aftur þetta er ferlið.  Við förum upp í um 22 á kvöldin ég fer með hana og gef henni í okkar rúmi og hún sofnar yfirleitt þannig og sefur nóttina til svona 6 og þá gef ég henni. Síðan vaknar hún svona um 8 fær að drekka svo förum við á fætur um 10-10.30. Hvað lestu úr þessu ferli hjá okkur. Það er eins og hún vilji ekki sofa þegar við erum vakandi.

............................................................................


Sæl og blessuð.

Það er erfitt að lesa eitthvað óeðlilegt úr mynstrinu sem þú ert að lýsa. Þetta hljómar eftir lýsingunni sem fullkomlega eðlilegt og fínt barn. Það er alltaf erfitt að segja til um hve langt á að vera milli gjafa hjá börnum á brjósti því það er alltaf sitt á hvað hjá þeim. Það kemur fram í lýsingunni þinni. Það er betra að telja saman hve margar gjafir barn er að taka á sólarhring. Ef það eru miklar sveiflur í því má telja í nokkra daga og taka meðaltal. Það sem ég les úr bréfinu þínu eru 14-15 gjafir á sólarhring. Það er svolítið mikið en þú athugar að barnið biður um næringu samkvæmt innri þörf. Maður ræður ósköp litlu. Maður er ekki í aðstöðu til að segja „Nei það hentar mér ekki að gefa þér svona oft þannig að gjafir kl. 3, 5 og 10 falla hér með niður það sem eftir er“. Það er talið frá náttúrunnar hendi mjög eðlilegt fyrir börn að sjúga mjög oft brjóst. Jafnvel einu sinni til tvisvar á klukkutíma. Það er bara á seinni árum sem mæður eru farnar að reyna að gefa eins sjaldan og þær komast af með. Þannig að það er ekkert óeðlilegt hægt að lesa úr þessari hegðan barnsins þíns. Þetta með að vakna þegar hún er lögð í vögguna gæti bent til að hún þyrfti meiri nærveru og nánd. Þau eru miskröfuhörð á það. Sum börn þurfa mikla snertingu við foreldra sína til að finna til öryggis. Það hefur ekkert með óþekkt að gera heldur þvert á móti verða einstaklingar sem fá þessum kröfum fullnægt mjög heilsteyptir og sjálfsöruggir þegar þeir eldast. Það er sem sagt ekki endilega víst að hún sé alltaf að biðja um næringu heldur kannski stundum bara smá kelerí. Prófaðu líka eftir gjöf að halda á henni í 20-30 mínútur. Ekki sitja kyrr heldur labbaðu um, gerðu verkin sem þú getur gert með einni hendi og leyfðu henni að fylgja hreyfingum þínum. Leggðu hana svo niður og vittu hvað gerist.          

Með bestu óskum og von um að vel til takist,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.