Ofnæmi og brjóstagjöf

26.09.2009

Sælar góðu konur!

Þannig er að sonur minn sem er tæplega 5 mánaða var að greinast með ofnæmi fyrir mjólk og eggjum. Þar sem hann er á brjósti var mér ráðlagt að taka alla fæðu sem inniheldur þetta úr mínum kúr. Og auðvitað geri ég það með glöðu geði, þó þetta sé vissulega soldið mál þar sem mjólkurprótein er í ansi mörgu. En spurning mín er sú hvort að það sé í lagi að ég borði mjólkurvörur t.d. á kvöldin þegar hann er farinn að sofa (sefur í um 5-6 tíma) Er mjólkurpróteinið lengi í manni eða er þetta eins og með alkahólið sem fer eftir einhvern x langan tíma? Þess má geta að þetta ofnæmi kom ekki fram fyrr en hann fór að smakka graut og fékk útbrot. Eins þegar ég prófaði að gefa honum þurrmjólk. Þetta virðist því ekki vera að pirra hann í maganum þó að hann sé að byrja að fá niðurgang núna, eftir að ég breytti mínum matarvenjum sem kannski passar ekki alveg.

Með þökk fyrir góðan vef.


 

Sæl og blessuð!

Það gilda allt aðrar reglur um mjólkurvörur og alkahól. Mjólk og afurðir hennar verða að fara alveg úr fæðinu svo lengi sem brjóstagjöfin varir. Það má aldrei svindla. Próteinin komast inn (á þeim forsendum að þau eru mjög lík móðurmjólkurpróteinum)en ekki svo glatt út aftur. Það er talað um að 1-2 vikur þurfi á mjólkurlausum kúr til að vera viss um að barnið sýni ekki viðbrögð. Og niðurgangurinn er nokkuð sem gengur væntanlega yfir þegar jafnvægi er komið á ykkur bæði.

Gangi ykkur vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. september 2009.