Ógleði við brjóstagjöf

14.10.2005

Var að eignast mitt 3. barn og finn fyrir ógleði í hvert sinn sem ég legg það á brjóst.  Eins líður mér eins og  ég sé kvíðin. Þegar brjóstagjöf lýkur, þá líður þetta hjá um leið. Eru einhverjar skýringar á þessu t.d er þetta hormónatengt?

...................................................................

Sæl og blessuð!

Já, þetta er þekkt fyrirbæri sem hendir sumar konur. Þetta er talið teljast hormónum en það er ekki fullrannsakað hvernig. Það eina sem ég get bent þér á að gera eru almenn ráð við ógleði sem þú hefur kannski heyrt eitthvað um á meðgöngunni. Borða lítið í einu og oftar. Drekka piparmyntute eða drykki gerða úr engiferrót. Sjúga piparmyntubrjóstsykur. Nudda annað slagið „ógleðipunktinn“ sem er á innanverðum framhandlegg þremur fingurbreiddum ofan úlnliðs á milli stóru sinanna. Þær sem hafa verið verst haldnar hafa farið út í að taka inn sjóveikilyf en þau eru stundum slævandi þannig að lestu vel utan á pakkninguna eða fáðu góðar upplýsingar með þeim.

Með ósk um að þú finnir ráð sem hjálpa,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. október 2005.